16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

18. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Magnús Torfason):

Allshn. þessarar deildar hefir eins og allshn. Nd. lagt það til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Ég þykist ekki þurfa að fara mörgum orðum um frv. Það var reifað við 1. umr. af réttum hlutaðeiganda. Ennfremur eiga sæti í d. tveir fagmenn í þessum efnum, og hafa þeir ekki fundið ástæðu til að bera fram brtt. Getur því ekki verið hér um ágreining að ræða.

Það er engum vafa bundið, að það er mikil bót í því að fá almenn ljósmæðralög, sem ná ekki aðeins til þeirra ljósmæðra, sem skipaðar eru af hinu opinbera, heldur og til allra starfandi ljósmæðra. Þetta er aðalbreytingin á lögunum frá 1932. Þá eru og nokkrar aðrar breyt. Hin helzta er sú, að hér er gert ráð fyrir, að ljósmæður, sem hafa stór umdæmi, þurfi ekki að sækja menntun sína til annara landa. Það er gengið út frá því, að kennsla sé orðin svo fullkomin í þessum fræðum í landinu sjálfu, að slíks sé ekki þörf. Og er gleðilegt, að svo er komið.

Þá er ákvæði um gegningarskyldu ljósmæðra, sem ekki eru skipaðar, heldur starfandi, og er ekki nema gott til þess að vita, að slík ákvæði komi inn í löggjöfina, því að það er nauðsynlegt og mannúðlegt í alla staði. Að síðustu skal ég taka það fram, að vel má vera, að allshn. komi með brtt. við frv. til 3. umr., en það er þó ekki fullráðið ennþá. Fjölyrði ég svo ekki frekar að sinni.