16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

18. mál, ljósmæðralög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég held, að það væri ekki rétt að fara að hreyfa við launakjörum ljósmæðranna nú á þessum tímum, því eins og kunnugt er, hafa staðið miklar og harðvítugar deilur um þau á undanförnum þingum, eða allt fram til ársins 1930. Það myndi aðeins verða til ills eins fyrir alla viðkomendur að fara að hreyfa því nú.

Ég verð að endurtaka það, að ég tel þetta mál ekki koma hið minnsta við frv. um ráðstafanir út af fjárþröng sveitarfélaga. Það væri fjarri öllum sanni að fara vegna frv. um fjárþröng sveitarfélaga að létta af sýslufélögunum þeim kvöðum, sem á þeim hvíla samkv. gildandi lögum vegna ljósmæðranna. Annars vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að í frv. um ráðstafanir út af fjárþröng sveitarfélaga er það ekki meint, að öll sýslufélög greiði þessi umræddu 10% af skuldum sveitarfélaganna. Meira að segja er ákvæðið ekki 10%, heldur allt að 10%. En í öllum bænum, við skulum ekki fara að deila um það frv. Til þess er nægur tími, þegar það kemur til umr.