21.02.1933
Neðri deild: 6. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

30. mál, útflutningur hrossa

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Þetta frv. er lagt fyrir Alþ. samkv. 23. gr. stjskr. um bráðabirgðalög. Ástæðan til þess, að bráðabirgðal. frá 21. okt. f. á. voru gefin út, var sú, að á seinasta hausti opnaðist markaður fyrir allmörg hross erlendis. En þannig stóð á skipaferðum, að ekki var hægt að flytja hrossin út fyrr en í lok oktmán., en l. frá seinasta þingi um útflutning hrossa, nr. 50 23. júní 1932, leyfa ekki að flytja út hross eftir 15. okt. Með því að landbúnaðurinn stendur svo höllum fæti, að hann má ekki við að missa markað fyrir framleiðsluvörur sínar og innlendur markaður fyrir hross er sama sem enginn, þá þótti nauðsynlegt að gefa út bráðabirgðal., og eru þau nú lögð fyrir þingið samkv. fyrirmælum 23. gr. stjskr. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði samþ. og gert að l., því að oft getur tíðarfari verið þannig háttað, að eins góð tíð sé eftir 15. okt. og frá miðjum sept. til 15. okt. Og þar sem við vitum, að oft eru hross látin standa úti og berja gaddinn, þá getur ekki talizt nein sérstök misbeyting á þeirri mannúðarskyldu, sem við höfum gagnvart málleysingjunum, að þau séu send út eftir að miður okt. er liðinn heldur en láta þau sæta þeirri meðferð, sem enn er nokkuð algeng á landi hér.

Vil ég leyfa mér að beina þeirri ósk til dm., að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.