22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

30. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Landbn. hefir athugað þessa breyt., sem Ed. hefir gert á frv. um útflutning hrossa. Ég sé ekki ástæðu til að fara að hrekja málið milli deilda, og af þeim ástæðum leggur n. til, að það verði samþ. eins og það nú er orðið.

Annars vil ég taka fram, að n. áleit, að sú breyt. sé ekki til bóta, að þessi heimild gildi aðeins til ársloka 1935. Ég er þess fullviss, að hvenær sem nokkur möguleiki er til markaða erlendis fyrir hross, þá muni sú stjórn, sem situr í það skiptið, hver sem hún svo verður, setja bráðabirgðalög til þess að leyfa slíkan útflutning. Þess vegna sýnist mér heppilegra, að þessi heimild gildi áfram, svo ekki þurfi að breyta síðar eða að losna við það, að sú stjórn, sem þá situr, þurfi að setja bráðabirgðalög um þetta efni. Það hefir komið fyrir, og getur ávallt komið fyrir, að það opnist möguleikar til þess að selja íslenzka hesta á erlendum markaði að vetri til, og það virðist engin ástæða til að hafa á móti því, að þeir möguleikar séu notaðir hvenær sem er. Frá mínu sjónarmiði er sjálfsagt að nota þetta, og þá ekki rétt að vera að girða fyrir það með löggjöf. Þrátt fyrir þetta leggur n. þó til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hv. Ed. gerði á því.