06.03.1933
Efri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

13. mál, heimild til að afmá veðskuldbindingar úr veðmálabókum

Frsm. (Pétur Magnússon):

Ég þarf fáu að bæta við það, sem stendur í grg. — eins og hv. dm. munu hafa séð, er hér um nokkurskonar hreingerningu á veðmálabókunum að ræða. L. gera ráð fyrir, að rannsókn fari fram á því, hvaða veðskuldbindingar muni ekki lengur vera í gildi, og setja reglur um það, hversu skuli afmá skuldbindingar þessar úr bókunum. Allir þeir, sem eitthvað hafa komið nálægt lánsstofnunum, vita, að mjög erfitt er að fá hrein veðbókarvottorð úr veðmálabókunum, þótt kunnugt sé, að veðskuldbindingin, sem í bókunum stendur, sé úr gildi fallin fyrir lengri eða skemmri tíma. Ekki verður heldur séð, að nokkur hætta fylgi þeirri leið, sem hér er farin, því að reglur frv. um, hvers gæta skuli áður en veðbindingin er strikuð út, sýnast eiga að vera full trygging fyrir því, að ekki verði gengið á rétt nokkurs manns. — Allshn., sem hefir athugað þetta mál, hefir orðið sammála um að mæla með því. Hún hefir lagt til, að á því verði gerðar smávægilegar breyt., eins og þskj. 83 ber með sér. En þessar breyt. eru aðeins orðabreyt. og þarf þess vegna ekki að gera frekari grein fyrir þeim. Á tveim stöðum er fært til réttara máls, 1. brtt. við 3. gr., og í 4. gr. felld burt orð, er n. hélt, að e. t. v. gætu verið villandi.

Ég vil mælast til, að þetta frv. verði samþ. með þeim smábreyt., sem n. leggur til.