18.02.1933
Neðri deild: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það hefir komið fyrir, að ríkissjóður og sveitarfélög hafa orðið að leggja fram talsvert fé til varnar landbroti í kaupstöðum og kauptúnum. Vitamálastjóri, sem hefir verið ráðunautur stj. um þessi mál, telur, að landbrotum þessum hafi venjulega valdið grjót- og malartaka úr flæðarmálinu. Það er auðsætt, að talsverð freisting er fyrir íbúa þorps, sem ef til vill er í hröðum vexti, að taka grjót og möl sem næst, en það er venjulega í fjörunni framundan þar sem byggt er. Þetta hafa íbúarnir að sjálfsögðu gert, án þess að þeir vissu, að þeir með þessu gætu komið af stað landbroti, sem mikið fé þarf til að bæta.

Fyrir því er réttast að banna þessa grjót- og malartekju með lögum, og sá er tilgangur þessa frv. Líklegt er þó, að á sumum stöðum sé óhætt að leyfa þetta, og með það fyrir augum er ákveðið í 3. gr. frv., að gefa megi undanþágu frá þessu banni.

Ég óska svo, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.