03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Allshn. hefir gert grein fyrir afstöðu sinni til þessa frv. með nál. á þskj. 60, og hefi ég litlu við það að bæta. N. álítur rétt að amast við því, hvar jarðrask sé gert, eins og segir í frv. En að því er snertir undanþágu frá þessu banni, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., þá virtist n., að sú undanþága mætti vera nokkru víðtækari, ef mannvirki væru reist á þeim stað, sem jarðraskið er gert. Það virðist vera tilgangur frv. að leyfa ekki jarðrask eða malartöku í landareign kaupstaða og sjávarþorpa, innan 800 m. frá byggð í sjávarþorpum, til beggja handa meðfram fjöru, nema að því leyti, er leiðir af hafnarmannvirkjum og ruðningi í bátalendingum, og öruggt sé, að ekki stafi af því landbrot eða aðrar skemmdir af völdum sjávar.

Þó að í bili þurfi að gera nokkurt jarðrask vegna mannvirkja, t. d. grafa fyrir grunni í klöpp eða lausum jarðvegi, þá virðist það eigi muni saka, þegar mannvirki er reist á þeim stað, sem jarðraskið var gert.

Hvar sem landi er raskað, eða illa frá því gengið, einkum þar, sem sjór nær til, er vitanlega mikil hætta á landbroti og skemmdum og verður að koma í veg fyrir það. En n. virtist rétt, að banninu væri þannig háttað, að það hindraði ekki framkvæmdir vegna mannvirkja. Samkv. því leggur n. til í brtt. á þskj. 60, að bann þetta nái þó eigi til ruðnings á bátalendingum né til grunnjöfnunar vegna hafnargerða eða annara mannvirkja. En í frv. eru aðeins undanskildar hafnargerðir og lendingarbætur. Sem sagt, n. hefir rýmkið þessa undanþáguheimild með brtt. sinni og vonar, að hv. þd. geti fallizt á hana.