03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil byrja á því að þakka hv. allshn. fyrir meðferð hennar á þessu frv., og skal taka það fram, að ég er alveg samþykkur brtt. hennar á þskj. 60. Út af orðum hv. þm. Borgf. skal ég geta þess, að ég skil frv. á sama hátt og hann. En þar sem hann álítur, að í hvert skipti þurfi að leita umsagnar og úrskurðar vitamálastjóra, og telur það of mikla fyrirhöfn, þá skal ég benda á, að í framkvæmdinni mundi þessu verða hagað á annan hátt. Ég býst við, að í allflestum tilfellum yrði fengin umsögn og álit hlutaðeigandi bæjarstjórna og hreppsn., og síðan mundi verða með símskeytum leitað úrskurðar vitamálastjóra í hverju tilfelli, er þörf þætti. Náttúrlega gæti það komið fyrir, að vitamálastjóri ætti ekki gott með að gefa úrskurði, nema að takast ferð á hendur til athugunar á staðháttum, ef hann er þar ekki kunnugur áður. En vitanlega væri það þá gert vegna þess, að einhver hætta stafar af hinu fyrirhugaða jarðraski, og þá er líka sannarlega ástæða til að firra ríkissjóð skaða, með því að koma í veg fyrir grjót- og malartöku í fjörum og annarsstaðar, þar sem hætta stafar af sjávargangi. — Ég skal ekki segja, að ekki kunni að mega draga eitthvað úr ákvæðum frv. um samþykki vitamálastjóra í öllum tilfellum, þegar um jarðrask eða efnisnám er að ræða, t. d. þegar bæjarstjórnir eru sammála nm að leyfa það. En ég vil þó vara við því, vegna þess að þá er frekar hætt við að svo fari, að lögin verði kák eitt og til lítils gagns.