15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það liggur við, að maður komist við þegar hv. þm. Borgf. er að lýsa þeirri fyrirhöfn, áhyggjum og erfiði, sem héraðastjórnir og hreppsnefndir eiga að verða fyrir út af ákvæðum þessa frv. Hv. þm. hefir lagt sitt skíra höfuð í bleyti og samið langa brtt., til þess, að því er virðist, meðal annars að létta þessa byrði svolítið fyrir sveitarfélögin og forða þeim frá óþarfri skriffinnsku. En þrátt fyrir þessa virðingarverðu viðleitni hv. þm. hefir þetta ekki tekizt öðruvísi en þannig, að samkv. brtt. hans hvílir alveg jafnmikil byrði á herðum sveitarstjórna vegna ráðstafana frv. Í frv. er þess getið í 3. gr., að til þess að jarðrask sé leyft á vissum svæðum, þurfi fyrst og fremst leyfi landeiganda og samþykki vitamálastjóra, að fengnum till. bæjarstj. eða hreppsnefndar. En hv. þm. Borgf., sem einkum hefir það fyrir augum að létta undir með heppsnefndum og bæjarstjórnum, gerir till. um, að þetta sama jarðrask geti landeigandi leyft, ef viðkomandi bæjarstj. eða hreppsn. veitir leyfið. Í hvorumtveggja tilfellum fellur nákvæmlega sama hlutverk á hendur bæjar- eða sveitarstjórnum, sem sé það, að láta uppi álit sitt með eða móti jarðraski á ákveðnum stöðum. Viðkomandi sveitar- eða bæjarstj. þarf að taka það upp á dagskrá á fundi að ræða þessi mál, hvort sem brtt hv. þm. Borgf. verður samþ. eða frv. eins og það er, óbreytt. Það er því af misskilningi hjá hv. þm., að hann heldur því fram, að með brtt. hans sé nokkru erfiði létt af bæjar- eða sveitarstj. í þessu efni.

Það má með sanni segja, að margt er lagt á herðar sveitarstjórnum, sem er óþarft. Og margt verra en þetta, að láta í ljós álit eða gefa samþykki um efnisnám á einhverjum landsvæðum, einkum þegar þess er gætt, sem mér virðist frv. gefa tilefni til að álíta, en sem mér virðist hv. þm. loka augunum fyrir, að samþykktir um jarðrask á einhverjum stöðum geti samkv. frv. gilt á hverjum stað fyrir 5 ár í senn, sem ég mun hafa bent á við 2. umr. Það er því alveg að ástæðulausu, að hv. þm. er að tala um það, að í hvert skipti, er einhver þarf að taka efni, svo sem möl og grjót, innan kauptúns einhversstaðar úti á landi, þurfi hann að sækja um það til vitamálastjóra.

Get ég því ekki eftir bezta vilja séð, að hv. þm. Borgf. bæti nokkuð úr með brtt. sinni, hvorki fyrir einstaklingum né heldur sveitafélögum. Hið eina, sem mundi vinnast með brtt. hv. þm. Borgf., ef hún yrði samþ., mundi verða það, að það þyrfti þá ekki að leita samþ. vitamálastjóra um leið og leyfið væri veitt. En hann vill í stað þess fá úrskurð atvmrh., að fengnum úrskurði vitamálastjóra, þegar kominn er upp ágreiningur á milli landeiganda og sveitarstjórnar. Þetta er ekki stór vinningur, og sennilega gæti oft orðið að leita till. vitamálastjóra, jafnvel þó að brtt. væri samþ.

Nú ber þess að gæta, að frv. er flutt að undirlagi vitamálaskrifstofunnar. Vitamálastjóri hefir komið því til leiðar til þess, að hann gæti framvegis fylgzt betur með því, hvar landeigendur vilja leyfa jarðrask í kaupstöðum og kauptúnum. Engin ástæða er til þess að útiloka vitamálaskrifstofuna frá þessu, því hún á hagsmuna að gæta fyrir landsins hönd.

Ég ætla, eftir því sem ég hefi tekið fram, að hv. dm. sjái, að þessi breyt. sé mjög lítið til bóta. Ætla ég þó ekki að gera það að sérstöku ágreiningsatriði, hvort hún verður samþ. eða ekki.

Hv. þm. Borgf. vill, að vitamálastjóri geri skrá yfir þau svæði, þar sem hætta getur stafað af jarðraski. Vitamálastjóri á svo að tilkynna sveitar- eða bæjarstj., og svo á að haga sér eftir því, sem hann ákveður. Til þess að framkvæma þetta þyrfti vitamálastjóri eða umboðsmenn hans að ferðast um allt landið, því að svo að segja til allra kaupstaða og kauptúna taka ákvæði þessa frv. Mundi þetta kosta mikið fé.

Ég hefi átt tal við vitamálastjóra um þessi 2 atriði: umskrift á 3. gr. frv. og með þeirri breyt., að fyrst sé gengið framhjá vitamálaskrifstofunni, og um hitt, að vitamálastjóri eigi að gera skrá yfir öll þau landsvæði, sem hér gætu komið til greina. Vitamálastjóri sagði, að hann gæti á engan hátt fallizt á, að orðabreyt. á 3. gr. væri til bóta, heldur væri með henni öllu snúið öfugt samkv. till. hv. þm. Borgf. Og hann áleit, að þessi skrá, sem hv. þm. Borgf. talar um, mundi kosta miklar ferðir og mikið fé. — Af öllum þessum ástæðum, sem ég nú hefi talið, sá allshn: sér ekki fært að leggja með brtt. hv. þm. Borgf., og leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.