15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil leiðrétta það hjá hv. 1. þm. S.-M., að frv. gangi framhjá till. staðkunnugra manna, því að frv. gerir þvert á móti ráð fyrir, að álit þeirra sé fyrir hendi, þegar efnistökuleyfi er veitt. Og gangurinn í þessu yrði engan veginn sá, sem hv. þm. Borgf. vildi vera láta, að vitamálastjóri skrifaði eftir umsögn hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstj., heldur mundi hún látin fylgja umsókn landeigandans til vitamálastjóra. Er þetta svo einfalt mál, að ekki á að þurfa að ræða.

Ég gat þess áður, að ég hefði bein orð vitamálastjóra fyrir því, að kostnaðurinn við það að gera þessar skrár, sem till. hv. þm. Borgf. ákveða, að gera skuli, mundi verða mjög mikill, enda liggur þetta í hlutarins eðli, þar sem hér er um það að ræða að gera slíkar skrár yfir alla kaupstaði og kauptún landsins, að þetta getur ekki orðið kostnaðarlítið. Annars get ég ekki stillt mig um að láta í ljós gleði mína yfir því, að áhyggjur hv. þm. Borgf. út af erfiði sveitarstj. virtust nú allar roknar út í veður og vind, eftir að hann hafði hlustað á rök mín í þessu máli.