21.02.1933
Neðri deild: 6. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

32. mál, ullarmat

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Atvinnumálaráðuneytinu hafa oft borizt gegnum sendiherrann, sem við eigum erlendis, umkvartanir vegna tilfinnanlegrar vöntunar á samræmi í ullarmatinu. Er ekki ástæða til að ætla, að þessar umkvartanir séu með öllu rakalausar, þar sem yfirullarmatsmenn hafa ekki haft neitt verulegt samband sín á milli, og því ekki nein trygging fyrir því, að allir matsmenn fylgi sömu reglum við matið. Nú er það nauðsynlegt, að við kostum kapps um að hafa allar okkar útflutningsvörur sem beztar og vandaðastar og að þannig sé gengið frá mati á þeim, að aldrei gefist réttmæt ástæða til umkvörtunar. Þessar ástæður liggja til þess, að þetta smáfrv. hefir verið lagt fyrir þingið. Er ætlazt til, að úr þeim ágöllum, sem verið hafa, sé að nokkru bætt með því að skipa einn mann til þess sérstaklega að hafa yfirumsjón með öllu ullarmati á landinu og veita hinum matsmönnunum leiðbeiningar og fræðslu um framkvæmd matsins. Jafnframt mun ráðuneytið láta fara fram rækilega athugun á því, hvort ekki sé ástæða til að breyta til um flokkun ullar, með því að á þeim reglum hafa þótt nokkrir gallar.

Skv. 3. gr. frv. verður lítilsháttar kostnaðarauki við þessa breyt., en þar sem annar höfuðatvinnuvegur landsmanna á í hlut, virðist ekki í það horfandi. Jafnframt skal geta þess, að hvað ferðakostnaðinn snertir, hefir ekki þótt fært að halda sér við hámarkið, sem sett er í núgildandi lögum. Verðgildi peninga í landinu var annað þá en nú, og þrátt fyrir niðurskurð á reikningum yfirullarmatsmanna hefir ekki verið hægt að halda við hámarkið, sem þar er sett.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.