04.03.1933
Neðri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

32. mál, ullarmat

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál.

Það er rétt hjá hæstv. atvmrh., að þegar um einhverja ákveðna framkvæmd eða eitthvert ákveðið verk er að ræða, fer yfirleitt vel á því, að þar sé einn húsbóndi eða verkstjóri settur yfir. Hitt er vitanlega takmarkað, hvað einn húsbóndi getur komizt yfir að sjá um verk á stóru svæði eða hafa umsjón með því, eins og það er takmarkað, hvað einn verkstjóri getur stjórnað stóru verki.

Ég vil bæta því við það, sem ég sagði áðan um þetta mál, að ef ofan á verður að gera frv. þetta að 1., þá fyndist mér ekki úr vegi að setja inn í það eitthvert ákvæði í þá átt, að þessum formanni ullarmatsmanna væri gert að skyldu að fræða landslýðinn um meðferð og verkun ullar, á þann hátt, sem heppilegast þætti. Að því leyti, sem hann getur ekki veitt slíka fræðslu á ferðalögum sínum um landið — því á þeim nær hann ekki til nema tiltölulega fárra manna —, hugsa ég mér, að honum væri lagt á hendur að flytja erindi í útvarpið um þessa hluti, svo oft sem ástæða þætti til. Mætti að slíku verða nokkur leiðbeining um meðferð ullarinnar í landinu. Ég veit ekki, hvort nauðsynlegt er að hafa um þetta föst ákvæði í frv. Líklega er þó rétt, að það komi fram í 1., að þetta sé skylda, sem á ullarmatsformanni hvílir, jafnframt því sem honum er með þeim veittur nokkru meiri réttur hvað launagreiðslu snertir.