17.02.1933
Neðri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

19. mál, sjúkrahús og fl.

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Heilbrigðisstofnunum hér á landi fjölgar árlega, og um þær er ekki til löggjöf, sem tryggi það, að til þeirra sé stofnað á heilbrigðum grundvelli og að rekstur þeirra sé forsvaranlegur. Einnig vantar í gildandi lög ákvæði um, hversu með skal fara þegar læknishérað vill reisa sjúkraskýli eða læknisbústað eða hvorttveggja. Um þetta hafa stundum orðið talsverðar deilur, og málin hafa verið leyst meira eftir því, hve mikið einstakir hlutar læknishéraðanna hafa viljað á sig leggja en eftir því, sem sanngirni segir til. Þá vantar og ákvæði í lög um það, þegar sjúkraskýli, sem ríkissjóður hefir lagt fé i, er lagt niður, hversu fara skuli um andvirðið. Úr öllu þessu er frv. þessu ætlað að bæta. Ennfremur er það tilgangur þess að gera tilraun til að draga úr kostnaði við hinar mörgu opinberu heilbrigðisstofnanir, með því að skipa sameiginlega 5 manna yfirstjórn. Þessi yfirstjórn á ekki að þurfa að kosta neitt, en ég geri mér von um, að hún gæti sparað ríkissjóði talsvert á ýmsan hátt, t. d. í vörukaupum o. fl.

Landlæknir hefir samið þetta frv., og tel ég ekki þörf á að ræða frekar innihald þess, en legg til, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og allshn.