18.02.1933
Efri deild: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að nú á tímum keppa allar þjóðir að því að búa að sínu og afla innlends markaðs fyrir framleiðsluvörur sínar. Nú er svo háttað högum íslenzks landbúnaðar, að nærri liggur strandi um flutning saltkjöts til Noregs, og óvíst um samninga á frystu kjöti til Bretlands. Eru því líkur til, að margir muni taka þann kost, að snúa sér meira að kúarækt en áður og smjör- og mjólkurframleiðslu, þótt ekki séu markaðshorfur heldur glæsilegar erlendis fyrir þær vörur. Frv. þetta er borið fram í því skyni að veita atvmrh. heimild til að ákveða, að viss hundraðshluti af smjöri skuli vera í því smjörlíki, sem framleitt er hér á landi. Hinsvegar þótti ekki rétt að ákveða þennan hundraðshluta með lögum. Er líklegt, að hann yrði að vera lágur í fyrstu, en mætti auka með tímanum.

Athugað hefir verið af Búnaðarfél. Íslands, hvort ekki mætti auka smjörframleiðsluna með stofnun smásmjörbúa, svipuðum og gömlu rjómabúin voru. Er skýrt ýtarlega frá þessu í grg. frv. Munar miklu á stofnkostnaði á slíkum búum og mjólkurbúum þeim, er nú starfa. Kostnaður hefir orðið þar um 270 þús. kr., en er áætlaður 20 þús. við smábúin.

Önnur aðalbreytingin, sem í þessu frv. felst á lögunum frá 1923, er sú, að skerpa eftirlitið með smjörlíkisverksmiðjunum í landinu. Verður ekki hjá því komizt, sérstaklega að því er snertir þá breyt., sem felst í 6. gr. frv., að í öllu smjörlíki skuli vera ákveðinn hundraðshluti af smjöri. Er ætlazt til, að kostnaðurinn við eftirlitið sé greiddur af verksmiðjunum sjálfum. Það hefir verið athugað og áætlað, hvað sá kostnaður yrði mikill, og fer hann varla fram úr 1/10 úr eyri á hvert kg. af smjörlíki.

En þriðja aðalbreyt. frá eldri lögunum, sem felst í þessu frv., er sú, að í staðinn fyrir eldra ákvæðið um að í smjörlíki skyldi 10% feitinnar vera sesamolía, þá er í frv. lagt til, að í öllu smjörlíki, ostlíki, rjóma- og mjólkurlíki skuli vera 20/00 af hreinni jarðeplasterkju. Þá vil ég jafnframt biðja afsökunar á því, að inn í 8. gr. frv. hefir slæðzt prentvilla, þar átti að vera 20/00 en ekki 200/00.

Þetta gamla lagaákvæði um, að í smjörlíki skuli 10% feitinnar vera sesamolía, var sett til þess, að auðveldara væri að rannsaka, hvort smjör sé blandað smjörlíki eða ekki. Þessi jarðeplasterkja á að gera sama gagn að því leyti, en hún hefir þann kost fram yfir olíuna, að henni fylgir ekkert sérstakt bragð, en að sesamolíunni þykir vera nokkur afkeimur, nema hún sé alveg sérstaklega vel hreinsuð.

Þar sem nú er ráð fyrir gert, að í smjörlíki verði blandað innlendri feiti eða smjöri, þá á það að leiða til hagkvæms sparnaðar á innkaupum erlendra fituefna. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði frv. við þessa umr., en vil að lokum aðeins minna á aðaltilgang frv., að stuðla að því, að í landinu verði framleitt sem fullkomnast smjörlíki og sem auðugast af fjörefnum. Þess mun full þörf, einkum vegna þeirra barna og unglinga, sem alast upp í kaupstöðum og sjávarþorpum, þar sem smjörlíkið er aðalviðbit. En jafnframt er það flutt til þess að auka markað í landinu sjálfu fyrir innlent smjör.

Þetta frv. er að allmiklu leyti samið eftir norskum lögum um þessi efni, en Norðmenn hafa nýjasta löggjöf á þessu sviði.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.