15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Þessari fyrirspurn hv. 1. landsk. er fljótsvarað. Aðalástæðan til þess, að þessi ákvæði um mjólkurlíki o. fl. voru sett í frv., var sú, að samskonar ákvæði eru í lögum þeim, er nú gilda. Ég taldi eigi sérstaka ástæðu til þess að fella þessi lagaákvæði úr gildi og lét þau haldast óbreytt. Hér er ekki um það að ræða, að styrkja þessa framleiðslu. En hinsvegar tel ég ástæðulaust, ef ekki á að banna þessa framleiðslu með lögum, að amast við því, að hún sé háð eftirliti eins og smjörlíkið sjálft. Ég skal játa, að ég er ekki fróður um þá hluti, en færi hinsvegar svo, að t. d. einhver smjörlíkisverksmiðjan færi að framleiða mjólkurlíki, þá sýnist það ekki skaða, þó sú framleiðsla væri undir eftirliti.