15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég get bætt því við umsögn hv. frsm. í síðustu ræðu hans, að ég hefi átt tal við framleiðendur smjörlíkis hér í bænum, og þeir hafa eindregið látið það álit sitt í ljós, að verð á smjörlíki mundi ekki hækka neitt. Því þó það kunni að hækka eitthvað vegna smjörsins, þá mun verða ódýrara að blanda það kartöflusterkjunni heldur en sesamolíu til þess að auðkenna það frá smjöri. Ef maður gerir ráð fyrir, að smjörið í smjörlíkinu verði t. d. 5% fyrst í stað, þá er það svo lítill hundraðshluti, þegar um leið sparast jafnmikið af annari feiti, sem annars hefði þurft að nota. Þess vegna held ég, að ekkert sé að óttast í þessu efni, þó frv. verði samþ.