15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Jón Þorláksson:

Ég fékk ekki annað svar hjá hæstv. atvmrh. við þeirri spurningu minni, hvers vegna þessar þrjár vörutegundir aðrar en smjörlíkið hefðu verið settar í frv., heldur en það, að þetta væri uppsuða úr eldri lögum, og hefði verið látið fljóta svona með, en ég er ekki viss um, nema hér sé máske lagt út á skakka braut, að fara nú að setja lög um eftirlit með mjólkurlíki, og þurfa svo ef til vill að eiga von á því, að kröfur komi fram um að fá að blanda sölumjólk með öðrum efnum. Ég hygg, að ákvæðin um eftirlit með mjólkur-, rjóma- og ostlíki geri það mögulegt að hafa þessa vöru á boðstólum, þar sem í ákvæðunum felst viðurkenning fyrir því, að það sé heimilt. Væru þessi ákvæði aftur á móti ekki samþ., mundi tilbúningur þessara vara verða talin óheimil stæling eða fölsun á óblönduðum vörum. Ég held því, að hér sé verið að veita heimild til þess að búa til þessar vörur, en ég get sagt það, að fyrir mér er það fullkomið vafaatriði, hvort rétt sé að leyfa tilbúning á rjóma-, mjólkur- og ostalíki hér á þessu landbúnaðarlandi, og vildi ég leggja til, að stj. athugaði þetta til 3. umr.