15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að tilbúningur ostlíkis og rjóma- og mjólkurlíkis mundi óheimill, ef þessi ákvæði frv. væru felld burt. Er þá óheimill tilbúningur hverrar þeirrar vöru, sem ekki eru sérstök lagafyrirmæli um? Hér á landi er allmikið notuð vara sú, sem nefnd er silkilíki. Mundi vera óheimilt að búa þessa vöru til, af því að ekki eru í ísl. lögum nein ákvæði um eftirlit með þeirri vörugerð? Það hefir ekki verið bannað í lögum að flytja inn ostlíki eða rjóma- og mjólkurlíki. Og enn síður liggur fyrir nokkurt lagabann við innlendri framleiðslu þessara vörutegunda. Hitt getur auðvitað komið til mála, að banna hvorttveggja, bæði innflutning og innlenda framleiðslu á þessum vörum og væri ég því ekki mótfallinn. En á meðan hvorugt þetta er bannað að lögum, þá fæ ég ekki séð, að það sé nein goðgá að setja ákvæði um eftirlit með þessum vörum eða framleiðslu þeirra. Þvert á móti eru þá nauðsynleg ákvæði eins og í frv. felast til þess að tryggja það, að almenningur geti þekkt þessar eftirlíkingar frá óblönduðum vörum.