17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Jón Baldvinsson:

N. hefir ekki getað fallizt á að ákveða það í 6. gr., hve hár hundraðshluti af smjöri skuli vera í smjörlíkinu, ef til þess kemur, að heimildin verður notuð, eins og búast má við, að verði; en hinsvegar hefir hv. 3. landsk. borið hér fram brtt. við 6. gr. frv., sem fjallar um það, að atvmrh. sé jafnframt heimilað að áskilja, að allt erlent smjörlíki, sem til landsins flyzt, skuli blandað með íslenzku smjöri. Verð ég að játa, að mér virðist þessi till. spaugileg í meira lagi, að ætlast til þess, að t. d. hollenzkir smjörlíkisframleiðendur, sem kynnu að flytja inn hingað eitthvað af smjörlíki, skuli kaupa héðan íslenzkt smjör, til þess að blanda smjörlíkið með því, og enda hafa skilríki íslenzks embættismanns fyrir því, að þeir hafi svo gert. Hinsvegar gæti verið full meining í því að áskilja, að í öllu erlendu smjörlíki, sem flyzt hingað, skuli vera sami hundraðshluti af smjöri, sem samsvari íslenzku smjöri að gæðum, eins og í íslenzku smjörlíki. Sé ég ekki annað en að till. feli í sér bann gegn innflutningi erlends smjörlíkis, því að erlendir smjörlíkisframleiðendur flytja ekki það mikið hingað af framleiðslu sinni, að þeir myndu telja það ómaksins vert að uppfylla þessi skilyrði til þess að geta haldið áfram þessum litla markaði hér. Till. er og það fortakslaus, að þetta bann mundi einnig ná yfir iðnaðarsmjörlíki, og virðist þó ekki vera ástæða til þess, því að iðnaðarsmjörlíki mun undantekningarlítið alltaf vera blandað hér með ísl. smjöri áður en það er notað, en auðvitað mætti skipa svo fyrir, að svo skyldi alltaf gert. Þrátt fyrir vörutollinn, sem á erlendu smjörlíki er, var þó svo hér um tíma, að erlent smjörlíki var ódýrara en innlent, en síðan gjaldeyrisvandræðin urðu, hefir lítið sem ekkert fé verið veitt til innkaupa á erlendu smjörlíki, nema það, sem nauðsynlegt hefir verið, enda hefir lítið sem ekkert verið flutt inn af erlendu smjörlíki í seinni tíð. Vil ég benda hv. 3. landsk. á þetta, ef á annað borð þætti rétt að banna innflutning á erlendu smjörlíki, teldi ég rétt, að slíkt yrði gert með beinum lagaákvæðum, er þar að lytu, en ekki óbeint, eins og hér er gert, og ég býst enda við því, að hv. 3. landsk. muni fallast á að taka till. sína aftur, eftir að honum hefir verið bent á, hversu hjákátleg till. er. Hv. þm. var reyndar, að því er mér heyrðist, eitthvað að tala um það, að Norðmenn hefðu samskonar ákvæði í l. hjá sér, og má vera, að þetta sé rétt, en það er jafnhjákátlegt fyrir það, og er engin ástæða til þess fyrir okkur að vera að apa þetta eftir Norðmönnum. Ég vil því mælast til þess við hv. 3. landsk., að hann taki till. sína aftur, og vænti ég þess jafnframt, að hæstv. forseti fallist á að taka málið út af dagskrá að þessu sinni, til þess að n. gefist kostur á að athuga betur, hvernig eftirliti með erlendu smjörlíki, sem hingað til landsins flyzt, yrði fyrirkomið. Vil ég í þessu sambandi minna á það, að það eru fleiri þjóðir en aðeins Norðmenn og Hollendingar, sem hingað hafa flutt smjörlíki, því að Danir hafa líka flutt hingað töluvert af smjörlíki.