17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég vil leyfa mér að skjóta fram þeirri aths., að enda þótt till. á þskj. 175 verði samþ. og áskilji, að allt erlent smjörlíki, er hingað flyzt, skuli blandað íslenzku smjöri, þá er ekki nauðsynlegt að flytja smjörið út, til þess að blanda því þar í smjörlíkið, eins og látið hefir verið í veðri vaka. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, þá er þetta framkvæmt í Noregi á þann hátt, að smjörlíkið er flutt inn óblandað, en aftur eru notaðar hnoðunarvélar til þess að blanda það smjörinu. Ég teldi því æskilegt, að till. yrði orðuð eins og ég drap á áðan og hv. 1. landsk. stakk upp á. Vil ég því biðja hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá í þetta sinn.