23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Þetta frv. var lagt fyrir Ed. sem stjfrv. Felur það í sér ýmsar breyt. frá þeirri löggjöf, sem nú er í gildi um smjörlíki, sölu þess og framleiðslu. Aðalbreytingarnar eru í samræmi við þær breyt., sem gerðar hafa verið á löggjöf um þetta efni í Noregi, Þýzkalandi og Hollandi, og fara í þá átt að veita stj. heimild til að ákveða, að í því smjörlíki, sem haft er til sölu, skuli vera ákveðinn hundraðshluti af smjöri. Hefir þessi löggjöf átt að miða að því, að tryggja meiri markað fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu. Þetta frv. stefnir í þá átt. Hefi ég orðið þess var, að einmitt þetta frv. hefir vakið nokkrar vonir meðal bændastéttarinnar úti um land, því að ráðuneytinu hafa borizt ýmsar fyrirspurnir um væntanlegan styrk til smjörbúa og rjómabúa, til þess að geta notað þá markaðsmöguleika, sem gætu orðið fyrir hendi, ef frv. yrði að l. Í þessu frv. eru og sett ýmis nánari fyrirmæli um eftirlit með framleiðslu smjörlíkis og nánari fyrirmæli um verksmiðjur þær, sem tilbúning þessarar vöru hafa með höndum. Í grg. frv., sem fylgdi stjfrv., er gerð allýtarleg grein fyrir því, sem fyrir ráðuneytinu vakti með flutningi þess, og vil ég leyfa mér að vísa til þess. Vil ég vænta þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.