21.02.1933
Neðri deild: 6. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

35. mál, kjötmat og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það hefir komið í ljós við reynsluna, að l. frá 1912 um merkingu kjöts og 1. frá 1930 um mat á kjöti til útflutnings eru ekki eins fullkomin og æskilegt væri, og því hefir atvmrn. í samráði við yfirkjötmatsmanninn og tvo helztu kjötútflytjendur látið semja þetta frv. Ég skal ekki við þessa , umr. fara nákvæmlega inn á hin einstöku atriði frv., en aðeins benda á, að skv. 1. frá 1930 eru yfirkjötmatsmenn 6, en skv. þessu frv. aðeins einn yfirkjötmatsmaður, en honum eru settir til aðstoðar a. m. k. þrír menn. Vænti ég því, að kostnaðurinn við matið lækki eitthvað við þessa breyt., en þó vakir sérstaklega fyrir mér, að með breyt. fáist meiri trygging fyrir samræmi í kjötmatinu. Einnig hefir þótt nauðsynlegt að setja föst ákvæði um löggildingu slátur- og frystihúsa. Er gert ráð fyrir, að ráðh. geti á hverjum tíma sett fyllri reglur í þessu efni. Þetta er sérstaklega sett í frv. með tilliti til þess, að hægt verði, eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg, að gera þessar reglur nákvæmari og fyllri og hægt verði eftir dómi reynslunnar að herða á skilyrðum til löggildingarinnar.

Frv. þetta er að nokkru leyti sniðið eftir nýjustu löggjöfum annara þjóða, sem kjötútflutning hafa, en hliðsjón höfð af þeim sérstöku ástæðum, sem hér eru fyrir hendi. — Jafnframt eru í frv. ákvæði um mat á kjöti, sem ætlað er til sölu á innlendum markaði. Hefir það þótt nauðsynlegt til þess að tryggja neytendum góða og vandaða vöru.

Ég skal svo ekki að sinni fara fleiri orðum um frv., en legg til, að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.