13.03.1933
Neðri deild: 23. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hv. allshn. hefir í aðalatriðum fallizt á frv. En jafnframt vil ég þó vísa til þess, er ég sagði við l. umr. þessa frv. Ég mæltist þá til við þá hv. n., er málinu væri vísað til, að hún tæki til athugunar, hvort ekki væri rétt að miða hámark íbúða við rúmtak þeirra. Ég lét í ljós þá skoðun, að herbergjafjöldi íbúðar segði ekki nákvæmlega til um það, hversu stór eða verðmikil hún væri. Herhergin gætu verið það stór, þótt fylgt væri hámarki um herbergjafjöldann, að um fullkomna „luksus“ íbúð væri að ræða. Ég bað því háttv. n. að athuga, hvort tilgangi l. yrði ekki betur náð með því að ákveða hámarksrúmtak íbúðanna, í stað herbergjafjölda.

Ég vil því mælast til þess, að hv. n. taki brtt. sína aftur að sinni og athugi til 3. umr., hvort ekki væri rétt að koma með brtt. í þá átt, sem fyrir mér vakir og ég nú hefi lýst. Ef miðað er við rúmtak, get ég hugsað, að nokkuð hæfilegt væri að miða við 500 rúmmetra í hverri íbúð. Hér í Rvík mun láta nærri, að byggingarverð vandaðra húsa sé nálægt 45 kr. hver rúmmetri. Yrði þá 500 rúmm. hús 22500 kr., og dýrari mætti hver íbúð alls ekki vera. Þetta er áreiðanlega hæfileg hámarksstærð húsa til að fullnægja venjulegum kröfum, án þess að geta talizt „luksus“íbúð. Hinsvegar tel ég, að ef ráðh. er ekki treyst til að ákveða stærð húsa eftir þessum 1., þá sé þetta atriði ekki nægilega tryggt með brtt. n. Íbúðarskipun má síðan haga á ýmsa vegu innan hins ákveðna rúmtakshámarks. Ég vil því enn að nýju mælast til, að hv. n. taki til nánari yfirvegunar, hvernig þessu yrði bezt fyrir komið.