13.03.1933
Neðri deild: 23. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég get að sjálfsögðu f. h. n. orðið við ósk hæstv. atvmrh. að taka þessa brtt. aftur til 3. umr. En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að réttara væri að miða við rúmtak en herbergjafjölda, þá kann það að vera rétt. Ég segi fyrir mitt leyti, og hygg ég megi segja það f. h. n., að hún hefir enga sérþekkingu í byggingarmálum og treystir sér því ekki til þess að dæma um það, hvað sé hæfileg íbúð, þegar miðað er við rúmtak, en vitanlega getur n. leitað umsagnar sérfróðra manna um þetta atriði. Annars tel ég ekki mjög mikla hættu á því, að byggðir verði stórir salir til þess að fá sem stærsta íbúð, þótt stærðin sé eingöngu miðuð við herbergjafjölda. Aðalhættan mundi í því fólgin, ef engin takmörk yrðu um stærð íbúða, að byggð yrðu, í skjóli laganna, herbergi eða jafnvel íbúðir til þess að leigja út, þannig að menn sköpuðu sér talsverða atvinnu af. Það er þetta, sem vakti fyrir okkur, að komið gæti til mála. Hitt get ég fallizt á, að hægt sé að finna heppilegan grundvöll með því að miða við rúmtak, og e. t. v. heppilegri en með tölutakmörkun herbergja.