16.03.1933
Neðri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Tryggvi Þórhallsson:

Ég vildi segja nokkur orð út af þeirri bendingu, sem hæstv. ráðh. (ÞBr) kom með um það, að það þyrfti að setja eitthvert hámark í sambandi við breytingar á 1., sem hér eru á ferðinni, og vil ég undirstrika það frekar, sem hæstv. ráðh. lét koma fram, og teldi ég jafnvel ástæðu til, að það kæmi fram annað hámark og viðtækara en hæstv. ráðh. benti á, þar sem hann talaði um að setja hámark að því er snertir rúmtak íbúðanna, miðað við 500 tenm.

Það verður að vera hugsunin með löggjöfinni, að ekki verði veitt sérstök hjálp þeim, sem ekki þurfa á hjálp að halda. Ég vil minnast á hliðstæð dæmi, þar sem ríkissjóður veitir aðstoð til að reisa hús. Ég hefi á hendi sem starfsmaður Búnaðarbankans framkvæmdir á l. um byggingar- og landnámssjóð. Hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir því, að þessar hámarksíbúðir kostuðu 22 þús. kr. í Rvík. Ég vil nú segja þessu til samanburðar, að það hefir verið tekin ákvörðun af stjórn byggingar- og landnámssjóðs, að hámarkslán til húss sé 6 þús. kr. Ég álít, að ráðstafanir til að styrkja byggingar megi ekki verða til þess að halda uppi óeðlilega háu verðlagi. Ég vil þess vegna leyfa mér að skjóta þeirri spurningu til n., hvort hún fallist ekki á, að jafnframt þessum breyt. á l. sé sett hámark, og ég fyrir mitt leyti álít, að það hámark að því er fjárhæð snertir eigi að vera töluvert lægra en það, sem hæstv. ráðh. benti á. Meðan ríkið veitir ekki nema 6 þús. kr. á hús út til sveitanna, þá álít ég ekki koma til mála, að íbúðum í kaupstöðum, sem reistar eru af þessu félagi, séu veittar ferfalt til fimmfalt hærri upphæðir. Ég get nefnt annað dæmi, og það eru prestssetrin. Hámarksupphæðin, sem ríkið veitir til þeirra, er 12 þús. kr.

Ég óska, að n. taki þetta til athugunar, og vona, að hún geti komið með till. um þetta.