21.03.1933
Efri deild: 30. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Tildrög þessa frv. eru rakin í aths. þeim, er því fylgja. Það er hliðstætt l. um vega- og brúamál, og held ég, að enginn ágreiningur verði um það, að rétt sé að setja slík 1. Sjútvn. hefir athugað frv. og þau rök, sem fram hafa komið á Alþ. í þessu máli, og er niðurstaðan sú, að n. leggur til, að upp í frv. verði teknar tvær eða þrjár greinar úr frv. því, sem sjútvn. Nd. flutti á þinginu 1931 um þessi mál.

Ástæðan til þess, að n. vill bæta þessum atriðum inn í frv., er fyrst og fremst sú, að hún telur þessa viðauka vera til bóta, og í annan máta telur hún líklegra, að frv. nái frekar fram að ganga með þeim en án, sökum þess að hv. sjútvn. Nd. lagði allmikla áherzlu einmitt á þessi atriði á þinginu 1931. — Ég vil þá víkja nokkrum orðum að brtt. n., sem eru fjórar. 1. brtt. fer fram á, að upp í frv. verði tekin ný grein, sem að efni til er shlj. grein, sem var í frv. sjútvn. Nd. 1931. Efni hennar er það, að vitamálastjóri geri árlega í samráði við forstöðumann stýrimannaskólans í Reykjavík og forseta Fiskifélags Íslands, tillögur og áætlun um fjárveitingar úr ríkissjóði til vitamála næstkomandi ár.

Það vakti fyrir n., að þótt hún vilji á engan hátt gera lítið úr trausti því, sem vitamálastjóra er sýnt, þá verði að líta svo á, að varla sé hægt að búast við því, að hann sé svo kunnugur staðháttum alstaðar á landinu, að ekki sé tryggara, að ráða fleiri manna njóti við. Þetta tefur ekkert störf vitamálastjóra, en er öruggara fyrirkomulag, sem tryggir það betur en áður hefir verið, að raddir fólksins utan af landi verði teknar til greina. N. vonar, að þessi brtt. mæti engri mótspyrnu, því að hún felur ekki neinn kostnað í sér.

2. brtt. fer líka fram á það, að tekin verði upp í frv. grein úr frv. sjútvn. Nd. frá 1931, og hljóðar hún svo:

„Verja skal árlega, ef ástæður ríkissjóðs leyfa, álíka upphæð til vitamála og vitagjaldi nemur, meðan stendur á byggingu vita þeirra, er ræðir um í 9. gr., ennfremur ef þurfa þykir til sjómerkja, sbr. 11. gr.“.

Það er ekki ástæðulaust að fá þessa grein inn í l. Aðalástæða n. var sú, að nokkurrar óánægju hefir orðið vart, bæði meðal íslenzkra og erlendra sjómanna, um það, að vitagjaldið væri of hátt. En þegar bent hefir verið á, hvað mikið hefir verið unnið að vitamálum síðustu áratugina, og hvað þörfin sé brýn á áframhaldandi starfi á þessu sviði, og að vitagjaldinu sé eingöngu varið til vitamála, hefir dregið úr þessari óánægju. N. álítur ekki rétt, að þetta gjald renni beint í ríkissjóð, því að þá er ekki hægt að benda á, að það renni beint til vitamála. En n. fellst á það, að nauðsynlegt sé að veita undantekningar frá þessari reglu, og því hefir n. bætt inn í þessa grein úr frv. frá 1931 orðunum: „ef ástæður ríkissjóðs leyfa“. Er það gert með hliðsjón af núv. ástandi, og taldi n. það vitalaust, þó að stj. sæi sér ekki fært á eins erfiðum tímum og nú eru að nota allt vitagjaldið til vitamála, og vonar hún, að með þessu hafi hún gert frv. svo úr garði, að stj. megi við una og sjái ekki ástæðu til þess að leggjast á móti þessari brtt.

3. brtt. er um það, að inn í frv. verði bætt einum nýjum vita, að Loftsstaðahól. Er það gert samkv. bendingu frá hv. 2. þm. Árn. og óskum þaðan að austan. Ég held, að menn muni verða á eitt sáttir um þessa brtt., því að á þessu svæði er þörf miklu meiri lýsingar en þar er nú. f handriti n. var fyrir aftan orðið Loftsstaðahól langt band, sem átti að merkja ljósvita. Þetta hefir fallið úr í prentuninni, en mun verða sett inn við endurprentun frv., því að það var meining n., að þarna yrði settur ljósviti.

4. brtt. er eins og 1. og 2. brtt. tekin upp úr frv. frá 1931. Efni hennar er á þá leið, að eftir till. vitamálastjóra geti ráðh., eftir því sem vitafé er fyrir hendi, látið setja upp ný sjómerki og leggja út ný dufl, svo og bæta eldri vita og önnur mannvirki, sem ætluð eru sjófarendum til öryggis. Þetta held ég, að sé tvímælalaust til bóta.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. N. leggur mikla áherzlu á, að það nái fram að ganga og hefir hagað brtt. sínum eftir því.