21.03.1933
Efri deild: 30. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er rétt, sem hv. frsm. n. tók fram, að stj. hefir ekki ástæðu til þess að vera á móti brtt. hennar. En ég vil út af orðalagi 1. brtt. benda á, að þegar talað er um „till. og áætlanir um fjárveitingu úr ríkissjóði til vitamála næstkomandi ár“, getur þetta „næstkomandi ár“ ekki staðizt. Undirbúningur fjárl. er alltaf byrjaður fyrir nýár ári áður, svo að byrjað er á fjárl. fyrir 1934 á árinu 1932. Ég veit, að hv. n. muni verða fús á að orða þetta öðruvísi, og mætti t. d. taka till. aftur til 3. umr.

Ég skil þá tilfinningu hjá hv. sjútvn., að hún vilji láta sem mest af vitagjaldinu renna til vitamála aftur. Það er rétt, að þetta gjald á ekki að vera skattur til ríkissjóðs, en það hefir verið svo undanfarin ár, að meira hefir verið innheimt af vitagjaldi en eytt hefir verið til vitamála, og það hlýtur að verða svo enn um sinn. En annars vil ég þakka hv. N. góða afgreiðslu þessa máls.