10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Haraldur Guðmundsson:

Ég varð þess ekki var, að hv. frsm. nefndi brtt. á þskj. 292, um það, að í upptalningu í 9. gr., á eftir „Glettinganesi .... hljóðviti“ komi „Brimnesi við Seyðisfjörð .... ljósviti“. Ég hygg, að það hafi verið aðgæzluleysi, þegar frv. var samið, að þessi viti var ekki talinn með. Það stendur nákvæmlega eins á þar og um vitann á Hellisnesi við Norðfjörð. Hvorirtveggja eru innfjarðavitar, en samt nokkuð notaðir af skipum, sem sigla með ströndum fram. Ég hefi rætt þetta við nokkra sjútvnm., og nefndu þeir helzt, að þetta yrði tekið með, enda hefir enginn móti því mælt. Ég hefi minnzt á þetta við vitamálastjóra, og hann áleit, að eins standi á um þennan vita og vitann á Hellisnesi við Norðfjörð.