17.02.1933
Efri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Á síðasta þingi var allmikið rætt um samkomulag Framsfl. og Alþfl. á þinginu 1931, og hirði ég ekki að endurtaka þær umr. hér að þessu sinni. Mín ætlun var þá sú, að komast hjá því að svipta stofnanirnar þessum tekjum. Ég flutti þá frv. um verðtoll á tóbaki, sem var fellt hér í hv. d. af því það fékk ekki fylgi hv. 2. landsk. En þegar þetta frv. var fallið, sá ég mér ekki annað fært en að fallast á þessa till. í hv. Nd. Hv. 2. landsk. má því að nokkru leyti sjálfum sér um kenna, hvernig fór á síðasta þingi í þessu máli.

Ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er aftur tekið upp nú, eru þær, að þörf ríkissjóðs fyrir þessar tekjur er sízt minni en í fyrra. Það er alveg ljóst, að þetta þing kemst ekki hjá því að afla aukinna tekna handa ríkissjóði. Hinsvegar get ég tekið það fram út af ræðum hv. 2. og hv. 5. landsk., að ég get hugsað mér, að eitthvað lítið eitt yrði dregið úr einstöku tekjuliðum og er reiðubúinn að eiga samtöl um það við fjhn. Ég vil þó í sambandi við 3. lið benda á það, að verð á tóbaki hefir verið hækkað frá því í fyrra, í því augnamiði að hækka tekjurnar af einkasölunni. Sú krafa, að þær eins og þær eru nú renni allar til stofnananna, hefir því ekki að öllu leyti við samtöl fortíðarinnar að styðjast. Þó að lögin um bráðabirgða breyt. nokkurra laga væru að síðustu afgr. í flýti á síðastl. þingi, þá var samt gott tækifæri til þess að ræða frv. í Ed. Frv. kom ekki seint fram og fékk því allgóðan undirbúning. Menningarsjóður slapp allvel. Það virðist naumast hægt að taka minna en fjórðapart af tekjum hans, úr því að eitthvað er tekið. Ég sé mér ekki fært að verða við óskum um að draga alveg til baka einstaka liði í frv. Það er fram borið til þess, að frekar verði hægt að standa straum af nauðsynlegustu aðgerðum til þess að létta undir með vinnandi fólki í landinu.