25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég er að hugsa um að biðja hæstv. forseta að fresta þessu máli eða taka það út af dagskrá, ef hv. 1. landsk. kemur ekki. Hann er einn í fjhn., og ég hygg, að hann hafi ætlað að flytja brtt. við frv., sem geti skipt máli, að málið gangi fram. (IP: Hv. 1. landsk. er hér). — Ég fell frá þessari ósk, að málinu verði frestað, af því að sá þm., sem ég hélt, að væri ekki við, er viðstaddur, og ég býst við, að hann komi með brtt. við 3. umr. — N. hefir orðið sammála um að mæla með nokkrum hluta, meiri hlutanum af þessu frv. óbreyttum, en um nokkra einstaka liði, sem eru tilteknir í nál., hefir ekki orðið samkomulag, svo að nm. hafa óbundin atkv. um þá. Ég get sagt a. m. k. fyrir mína hönd, að á flestar af þessum frestunum líta menn sem neyðarúrræði, sem menn vona, að vari sem skemmst, og til sumra hluta álíta menn, að ekki sé einu sinni forsvaranlegt að láta frestunina ná. Ég ætla ekki að fjölyrða neitt um það, sem við erum sammála um, 1., 4., 5. og 6. lið frv., af því að þar greiðir öll n. atkv. með stjfrv., en ég ætla að segja fáein orð um 2. og 3. liðinn. Það er þá fyrst liðurinn um þjóðleikhús og skemmtanaskatt. Ég býst við því, að annaðhvort verði af einhverjum eða fleiri en einum komið með brtt. við 3. umr., svo framarlega sem sá liður verður samþ., um það, að láta nokkurn hluta skattsins renna til þess að verja bygginguna frá skemmdum. Ég fer ekki frekar út í það að þessu sinni, af því að það er gerð ýtarleg grein fyrir því í bréfi frá leikhúsnefndinni, hvernig hún lítur á þetta mál. Því hefir verið haldið fram af mörgum, að það væri ekki neitt bjargráðafyrirtæki að halda áfram að byggja leikhús. Það getur þó verið atvinnubót, því að smiðir og verkamenn hafa ekki síður atvinnu af því en hverju öðru. Í öðru lagi er það fullvíst, að þessi bygging muni gefa mikið af sér fyrir landið, þegar hún er upp komin, því að þar er hægt að reka kvikmyndahús, fyrir utan aðaltilganginn, og það er öllum kunnugt, að kvikmyndahús er einhver sú mesta gróðalind, sem hægt er að hafa í þessum bæ. Það er enginn vafi á því, að ef prívat maður ætti húsið, yrði reynt að hafa einhver ráð til að fullgera það, a. m. k. áhorfendasalinn, til þess að græða á því. Um þetta mál ætla ég ekki að fjölyrða nú, af því að ég býst við, að það verði tekið af öðrum sérstaklega.

Um 3. liðinn, tóbakseinkasöluna, erum við hv. 2. þm. S.-M. alveg samdóma, að þann lið eigi að fella, og það kemur af því, að við búumst ekki við, að ríkið hafi nokkra þörf, þó að þær séu margar, sem sé nauðsynlegri og réttlátari en að auka dálítið byggingar á húsum yfir erfiðismenn í sveitum og kaupstöðum. Það er rétt, sem sagt er í fskj. frá Alþýðusambandinu, að það var beint tekið fram, að þessi kaupmannsgróði á tóbakinu, sem hefði alls ekki runnið í landssjóð, ef einkasalan hefði ekki komizt á, átti að ganga til nauðsynlegra hluta, að bæta húsakynni hins stritandi fólks í landinu. Þar sem verður að veita þúsundir og tugi þúsunda króna í atvinnuleysisvinnu, sem hlýtur að fara og fer til hluta, sem ekki gefa neitt af sér, en er aðeins gert til þess að veita atvinnu, þá virðist vera nær að slá ekki niður þessa nauðsynlegu starfsemi, sem bæði er mikil atvinnubót, þó að það sé ekki fyrsta atriðið, og líka heilsubót og bjargráðabót fyrir fólkið í landinu. Ég get ekki hugsað mér, að þm. komi ánægðir heim af þinginu, hvorki til kjósendanna í kaupstöðum eða sveitum, ef þeir hafa verið með að samþ. þennan lið frv. — N. hefir að vísu orðið sammála um að mæla með því, að 6. liðurinn verði samþ., en ég verð að segja, að í raun og veru er ég sáróánægður yfir því og ætla að nota tækifærið til þess að segja frá því, að frá mörgum beztu eftirlitsmönnunum úti um land hefi ég fengið vitneskju um, að þessi starfsemi hefir orðið til bóta, þar sem hinir vanræktu farkennarar hafa getað haft stuðning af áhugasömum mönnum, sem hafa meiri æfingu og reynslu en þeir. Ég veit, að þetta hefir ekki mikil áhrif á atkvgr. hér, en vegna framtíðarinnar vil ég segja þetta um þennan lið.

Þá kemur að síðasta, 7. liðnum, sem tveir nm. a. m. k. eru mótfallnir, að fella niður 1/4 af tekjum menningarsjóðs. Það liggur fyrir ýtarleg grg. frá stj. sjóðsins, sem ég þykist vita, að hv. þm. hafi lesið, og ég vil bæta því við, að þetta fé, sem hér um ræðir, er ekki stór upphæð, en er sennilega betur varið en flestum öðrum þeim tekjum, sem landið hefir og sem það borgar fyrir einhver störf, og það er vegna þeirrar þrískiptingar, sem er á þessum sjóði, til bókaútgáfu, listamanna og náttúrufræðinga. Þessir menn eru langverst settir af öllum andlegum starfsmönnum hér á landi, og ég get rökstutt það með því að segja, að það eru margir ágætir menn í þessum hóp, sem þykir það fagnaðarefni, ef þeir fá 5—6 hundruð kr. fyrir vinnu sína úr þessum sjóði, og vita margir, hve lítið er lagt upp úr því af þeim, sem hafa hærri tekjur, og það er síður en svo, að þessi vinna sé eins þýðingarlaus eins og margir vilja vera láta; því þegar landið vill láta til sín taka, a. m. k. af öðrum þjóðum, þá er leitað til þessara manna. Í sumar, þegar sýning var í Stokkhólmi, þá voru það listamennirnir okkar, þessir fátæku og illa settu andans menn, sem héldu uppi heiðri landsins. En það er mála sannast, að það, sem rithöfundar, listamenn, vísindamenn og skáld hafa fengið, hefir alltaf verið hungurskammtur. En það, sem var gert til þess að hjálpa þeim, þó það væri ekki stórt, bar þó mikinn árangur og hjálpaði til þess að halda við okkar andlega lífi.

Ég held þess vegna, þar sem um svona litlar tekjur er að ræða, að það sé enginn hagur að því að vera að klípa af þeim. Þegar það er athugað, að þessir menn eru verst staddir fjárhagslega af öllum mönnum í landinu, og að sumir þeirra a. m. k. eru menn, sem mestum ljóma kasta yfir landið, þá er þetta óheppileg ráðstöfun. Vona ég því, að 7. liður verði felldur.