25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Ingvar Pálmason:

Mig greinir að vissu leyti dálítið á við meðnan. mína um þetta mál. Að því er snertir 2. tölul. þessa frv. hefi ég ekki getað orðið samferða meðnm. mínum um að gera á honum breytingu. Það má vel vera, að nauðsynlegt sé að eitthvert fé verði fyrir hendi til þess að fullgera utan þessa byggingu, þjóðleikhúsið, sem komin er nú nokkuð á veg. En ég get ekki séð, að það sé nein ástæða til þess að hverfa frá þeirri braut, sem horfið var inn á í fyrra með þessum lögum. Og meðan sakir standa eins og nú um erfiðleika ríkissjóðs, þá er réttmætt, að þessar tekjur renni í ríkissjóðinn. En hinsvegar geri ég ráð fyrir því, að til þess að verja þessa byggingu skemmdum, þá muni vera hægt að komast af með tiltölulega litla upphæð, 25 til 30 þús. krónur. Og ef það er rétt, sem sumir halda fram, að þetta muni verða mikið gróðafyrirtæki, þá munu verða einhver ráð til þess að fá fé á einn eður annan hátt til þess að fullgera þessa byggingu. Það, sem mig greindi aðallega á við meðnm. mína, var það, að ég hefi enga trú á því, að þetta verði fjárhagslegt gróðafyrirtæki. Hve mikil andleg verðmæti það kann að skapa, skal ég ekki segja, en fjárhagslegar tekjur hugsa ég, að verði litlar. Mér virðist litlu sleppt, þó að frestað verði framkvæmdum með þessa byggingu, meðan sakir standa eins og nú um fjárhag ríkisins.

Þá þykir mér rétt að taka fram, að ég get ekki verið með því, að haldið verði áfram með það, að tekjum af einkasölu ríkisins á tóbaki verði varið til annars en lög mæla fyrir. Það er af tveimur ástæðum. Eins og hv. d. rekur minni til, þá var ég talsvert riðinn við þau lög, þegar þau gengu fram hér á þingi. Ég kannast fullkomlega við það, að frá minni hendi var fullt samkomulag við alla aðila, sem þar áttu hlut að máli, að tekjunum yrði varið á þann hátt, sem þá var ákveðið. Af þeim ástæðum fyrst og fremst get ég ekki réttlætt það, að leggjast nú á móti því, að þessu fé verði varið eins og lög mæla fyrir, sérstaklega þegar þannig stendur á, að búast má við, að það þurfi að verja allmiklu fé til aukinnar atvinnu, og það ekki sízt hér í Rvík. Ég held, að atvinnubótavinna vilji oft lenda í þeim fyrirtækjum, sem lítinn arð gefa. En að því er snertir byggingu verkamannabústaða, þá held ég, að sú vinna og peningar, sem í það væri varið, mundu bera eftirkomendunum ávöxt, mjög líkt og byggingar- og landnámssjóður sveitunum. Ég lít svo á, að öðru máli gegni um þetta fé en það, sem ætlað er til þess að fullkomna þjóðleikhúsið. Ég álít, að þetta skipti ríkissjóðinn ekki eins miklu máli eins og í fljótu bragði sýnist, því að það má búast við, að ríkissjóður þurfi að sjá fyrir talsvert miklu fé í svipuðu augnamiði og hægt er að nota þetta fé til. Og það er engin bót að því, að þetta fé falli til framkvæmda, sem þjóðinni í heild er ekki eins hagkvæmar eins og þær, sem lög um tóbakseinkasölu ríkisins mæla fyrir.

Í þriðja lagi þykir mér rétt að taka fram, að ég sé ekki ástæðu til þess, þó að erfitt sé hjá ríkissjóði, að vera að ásælast þær tekjur, sem menningarsjóður á að fá. Það er tiltölulega lítil upphæð og enginn vafi á því, að það er þörf fyrir féð til hagsbóta fyrir þá menn þjóðfélagsins, sem nú eru mjög illa staddir (listamennina). Ég mun því greiða atkv. á móti þessum lið.

Ég taldi rétt að láta þetta koma fram við þessa umr., á hverju ég byggi atkv. mitt.