25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Þegar þetta mál var til 1. umr., benti ég á atriði í þessu frv., sem færi í bág við samkomulag og samþykktir fyrri þinga. Ég á þar við 3. lið frv., um tekjur af tóbakseinkasölu ríkisins, sem eftir þeim lögum á að ganga til verkamannabústaða í kaupstöðum og byggingar- og landnámssjóðs. Hv. 5. landsk. hefir nú minnzt á þetta lítilsháttar, en ég skal ekki segja, hvernig n. í heild sinni lítur á þetta, en það er að sjá af nál., að þessi liður sé ekki meðal þeirra liða, sem n. vill mæla með, að verði samþ. A. m. k. eru ekki allir nm. sammála um það.

Ég held, að þó að ríkissjóði sé þörf á fé til rekstrar á ríkisbúskapnum, þá sé misráðið að taka þessar tekjur frá þessum byggingarsjóðum, vegna þess að ef þessir sjóðir halda tekjum sínum, þá verða fyrir þeirra fé gerðar, þær litlu framkvæmdir, sem verða af hálfu þess opinbera. Því að nú er dregið úr framlagi til verklegra framkvæmda í fjárl. fyrir næsta ár, og hæstv. stj. og flokkar hennar hafa ennþá ekki viljað fallast á það, að inn í fjárlagafrv. komi verulegar upphæðir til þess að halda uppi atvinnubótavinnu í landinu, ef þörf er á, sem því miður er útlit fyrir, að verði. Þess vegna er ennþá meiri ástæða fyrir þingið að samþ. ekki þessa takmörkun á framkvæmdum þess opinbera, auk þess sem ég tel Framsfl. sérstaklega skylt að standa á móti því, að þessi liður verði samþ., vegna samkomulags þess, sem hann hefir áður gert í þessu máli við Alþfl. og við sjálfan sig.

Hæstv. forsrh., sem í fyrra átti hlut að því að taka fá frá þessum sjóði á þessu ári, þó það yrði ekki til fullnustu, lét þess getið í ræðu sinni þá, að því er mér skildist, að hann ætlaði ekki að hafa tekjur af þessum sjóði nema síðari hluta árs 1934. En eftir þessu frv. er engin miskunn hjá Magnúsi. Því að nú á að taka tekjur einkasölunnar frá áramótum til ársloka 1934. Þetta er að mínu viti fyrst og fremst þvert ofan í samkomulag Framsfl. við Alþfl., og þvert ofan í það, sem bæði ég og aðrir ætluðum, að væri meiningin hjá hæstv. ráðh. á síðasta þingi. Þess vegna vil ég gera fastlega ráð fyrir því, að hv. d. felli þennan lið.

Þá vil ég víkja því fastlega til hæstv. forseta, að hann beri upp þessa liði 1. gr. frv. hvern í sínu lagi, á sama hátt og forseti Nd. úrskurðaði, að með þá skyldi fara á þinginu í fyrra, því að hann bar upp liðinn hvern fyrir sig.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta við þessa umr., því að ég hefi áður tekið fram það, sem máli skiptir, hve veigamikið þetta er fyrir atvinnu landsmanna og fyrir bætt húsakynni verkalýðsins og sveitafólksins, að láta þetta fé ganga til þess, sem því var upphaflega ætlað að ganga. Um hina liðina kemur afstaða mín í ljós við atkvgr.