25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller:

Þegar ég stóð upp áðan, var það ekki til annars en að gera grein fyrir atkv. mínu, og er það því hreinn misskilningur hjá hv. 2. landsk., ef hann heldur, að á bak við þessi fáu orð, sem ég sagði, hafi staðið einhver dýpri pólitík, eða um samband á milli þeirra og einhverra samninga í stjskrmálinu gæti verið að ræða. Ég er vanur að taka afstöðu til hvers máls eins og það liggur fyrir við hverja umr. um sig, án þess að taka tillit til, hvernig um málið kann að fara við lokaatkvgr. við 3. umr.

Þar sem ég hefi lýst afstöðu minni til 2. liðs, þótti mér rétt að gera einnig grein fyrir atkv. mínu um 3. lið, því að ég þóttist vita, að sú afstaða mín myndi sæta gagnrýni af hv. 2. landsk. og hans líkum. Hann tók líka svo til orða, að ég væri hér að slá hendi á móti vænni visk handa Reykjavík, og myndi fá óþökk kjósenda að launum. En hann gætir þess ekki, að þeir, sem verða að borga þessa vænu visk, eru Reykvíkingar sjálfir. Ef ríkið er svipt þessum tekjustofni, verður að afla fjárins annarsstaðar, og fá þá Reykvíkingar að greiða bróðurpartinn, ef að vanda lætur. Spurningin er því aðeins sú, hvort það sé heppileg aðferð að leggja fé í sjóð til að byggja hús, sem ekki er þörf fyrir, og verða svo á eftir að íþyngja þrautpíndum gjaldendum með nýjum skattaálögum. Ég vil svara því neitandi. Hv. 2. landsk. vefengdi, að rétt væri, að húsnæðisskortur væri að hverfa úr sögunni hér í Reykjavík. Hann hélt því fram, að hér væri enn skortur á vissri tegund íbúða, tveim herbergjum og eldhúsi. Á þeim íbúðum taldi hann algerðan skort. Mér er kunnugt um, að þessi staðhæfing er algerlega röng. Ég hefi náið samband við þá menn, sem eiga að sjá allra fátækasta fólkinu í bænum fyrir húsnæði, að þeir telja engin tormerki á því að fá slíkar íbúðir. Mér er líka kunnugt um það af sambandi mínu við blað það, sem mest flytur af húsnæðisauglýsingum, að framboð á slíkum íbúðum er mjög mikið nú orðið. Hv. 2. landsk. þýðir ekkert að mótmæla þessu. Ef nóg er af stórum íbúðum, verða þær ekki lengi látnar standa auðar, heldur breytt í smærri íbúðir. Fjármálaspeki hv. 2. landsk. er sú, að leggja fé í sjóð til óþarfra hluta og ganga svo að gjaldendunum, til að afla ríkissjóði tekna í staðinn. Þessu get ég ekki fylgt, sízt sem þm. Reykv.