25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi ekki mörgu að svara. Ég hefi sýnt fram á, að ríkissjóður þarf þessar tekjur vegna ríkisrekstrarins sjálfs. Allar þær sömu ástæður og voru fyrir þessu í fyrra, eru fyrir hendi nú, svo að þeir, sem töldu rétt þá, að ríkissjóður nyti þessara tekna, hljóta að vera á sömu skoðun nú.

Hv. 2. landsk. hafði enga ástæðu til að segja, að Framsóknarflokkurinn væri búinn að semja um afnám tóbakseinkasölunnar. Ég tók einmitt fram, að ríkið gæti ekki verið án þeirra tekna, sem þessi stofnun gefur af sér. Hv. þm. sagði, að atvinnubótum ætti að haga svo, að sem mestur arður yrði af þeim. Þetta er alveg rétt, en þess er að gæta, að hér horfir þetta mál öðruvísi við en í iðnaðarlöndunum. Hér er atvinnuleysið einkum bundið við eina árstíð, veturinn, að þá verður að hjálpa þeim, sem bágast eiga, jafnvel þótt vinnan gefi ekki fullan ágóða í aðra hönd. Hitt er varhugavert, að keppa við atvinnuvegi landsmanna með atvinnubótum á sumrin, þegar atvinnuleysið er lítið eða ekkert í landinu. Atvinnubótavinna er jafnan neyðarúrræði, sem hverri stj. er skylt að halda niðri, ef slíkt má verða án tjóns fyrir þjóð og einstaklinga. Ég hefi ávallt verið hlynntur nauðsynlegum atvinnubótum, en ég get ekki fylgt því á slíkum vandræðatímum að fleygja fé úr ríkissjóði vegna hluta, sem vel geta beðið.