25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Hv. sessunautur minn (JakM) sagði, að það væri rangt, sem ég hélt fram, að það væri skortur á vissri tegund íbúða hér í bænum. Ég fullyrði engu að síður, að það vantar íbúðir, sem eru við hæfi tekjuminnsta fólksins, verkamanna, sjómanna og fátækra iðnaðarmanna, enda játaði eiginlega hv. þm. í lok ræðu sinnar, að svo væri. Hann sagði fyrst, að hvergi væri skortur á neinni tegund íbúða. En hann bætti svo við, að það væri verið að breyta stórum íbúðum í smærri íbúðir. Í því felst játning á því, að það vanti smáíbúðir. Enda er það svo, því flest hús, sem hér hafa verið byggð á undanförnum árum, hafa verið sniðin til íbúðar handa einni fjölskyldu. Hafa í hæsta lagi eitt eða tvö herbergi verið ætluð til að leigja einhleypingum. Húsum, sem upphaflega eru ætluð einni fjölskyldu, verður ekki auðveldlega né haganlega breytt í margar smærri íbúðir. Og þó það sé gert, verður það alltaf mjög klúðurslegt, og á þann hátt fást aldrei eins ódýrar og hentugar íbúðir eins og ef húsin eru upphaflega byggð með það fyrir augum, að þau séu við hæfi verkalýðsins. Enda hefir komið fram við þessa umr., að erfiðleikar geta verið á því að fá hentugar smáíbúðir, m. a. af því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði um það, hvað einstakir menn þyrftu að borga fyrir herbergi. Hann er gestur hér í bænum, og sagt er, að glöggt sé gests augað. Mun hann því hafa séð betur en sumir aðrir, að hér er einhverju ábótavant. Held ég, að hv. 1. þm. Reykv. standi mjög höllum fæti í þessu máli.