25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller:

Mér þykir vænt um, að við hv. 2. landsk. erum orðnir sammála um það, að ekki sé skortur á neinni tegund íbúða hér í bænum. Hv. þm. gekk nefnilega alveg inn á þetta í síðustu ræðu sinni. Hann hélt aðeins fram, að þessar tveggja herbergja íbúðir, sem verið væri að gera úr stærri íbúðum, væru ekki eins hentugar eins og hægt væri að gera smáíbúðir í nýjum húsum. Það kann að vera rétt. En ég held því fram, að á slíkum tíma sem nú er sé það beinlínis „luxus“, ef ríkissjóður fer að leggja fé í sjóð til þess að byggja íbúðir, sem nóg er til af áður, aðeins vegna þess, að þær gömlu eru ekki eins hentugar. Slíkt er „luxus“, sem við höfum ekki efni á eins og nú standa sakir. Ef hægt er að komast af með þær íbúðir, sem til eru, mun þingið eitthvað þarfara hafa að gera við fé ríkissjóðs heldur en kasta því í þann óþarfa að byggja íbúðir, sem nóg er til af.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði um, að glöggt væri gests augað, hefi ég ekki annað að segja en það, að ég treysti nú betur augum þeirra manna, sem hér eru þaulkunnugir, hafa alltaf samgang við fólkið í bænum og þekkja leigumálana, heldur en jafnvel hinu glögga gestsauga hv. 2. þm. S.-M.