27.04.1933
Efri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. við síðasta lið frv. og leggja það til, að minnka þann hluta, er renni í ríkissjóð af tekjum þeim, er ræðir um í l. um menningarsjóð. — Það var reyndar auðheyrt við 2. umr. þessa frv. hér í hv. deild, að þdm. voru því velviljaðir, að ekki yrði gengið mjög hart að menningarsjóði um gjöld í ríkissjóð.

En síðan hefir þó komið fram nýtt atriði, sem er þess valdandi, að ég flyt þessa brtt. Hæstv. kennslumálaráðh. hefir verið að undirbúa það, að stjórn menningarsjóðs keypti náttúrugripasafn Guðmundar heitins Bárðarsonar. En stjórn sjóðsins telur sig ekki geta það vegna fjárskorts. Það er upplýst, að tekjur menningarsjóðs ,hafa minnkað mjög, eða um helming, niður í 30 þús. kr., og því er svo skv. 1. skipt í þrjá staði. Ég hefi því leyft mér að bera fram þessa till., er hækkar tekjur sjóðsins, en að jafnframt sé sjóðnum lögð sú kvöð á herðar að kaupa umrætt náttúrugripasafn. Ég hygg, að safnið sé gott og að mikils virði sé fyrir ríkið að eignast það. Að sögn hafa útlendingar augastað á að eignast safnið. Hefi ég heyrt, að British Museum hafi spurzt fyrir um það. Ef till. mín verður samþ., mun sjóðsstjórnin fús að taka til athugunar kaup á safninu. Ég hefði að vísu helzt óskað, að menningarsjóður mætti njóta tekna sinna óskertra. En þótt svo sé, þá hefi ég samt ekki viljað ganga lengra en till. þessi ber með sér.