21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

24. mál, vega og brúargerð

Jón Jónsson:

Á þessu frv. urðu, að till. samgmn., talsverðar breyt. við 2. umr. Bæði var lántökuheimild ríkissjóðs hækkuð upp í ½ millj. kr., 200 þús. til vegagerða og 300 þús. kr. til brúargerða. Hefir það sjálfsagt verið meining n. að ýta undir framkvæmdir sveitamanna á þessu sviði. En jafnframt var því slegið föstu, að vextir af þessum lánum skyldu vera 5½%. En í frv. stj. hafði verið tiltekið, að þeir skyldu vera 1/2% hærri en hæstu innlánsvextir í Landsbankanum. Mér finnst nú, að með þessari breyt. á frv. sé gengið inn á nokkuð athugaverða leið. Að vísu má telja það æskilegt, að framkvæmdir á þessu sviði geti orðið örar. En þó er vafasamt, hversu langt á að ganga að auka skuldir ríkissjóðs á þennan hátt. Miklu æskilegra en stofnun nýrra skulda er það, að ríkissjóður geti lagt fram hæfilega upphæð til þessara hluta í hvert sinn, einkum þar sem töluvert mikið hefir verið gert á þessu sviði. Ég játa að vísu, að það er mikil freisting að gera sem fyrst það, sem ógert er. En mér finnst þó ekki ósanngjarnt, að þau héruð, sem njóta þeirra framkvæmda, sem heimilast með þessum l., leggi fram féð með sæmilega góðum kjörum. Nú er það svo, að atvinnuvegunum er brýn þörf á því, að vextir lækki, ef rekstur þeirra á að geta borið sig. Er frv. um það fyrir þinginu og ætlunin sú, að það komist í framkvæmd. Er því ekki rétt að samþ. neitt, sem fer í bága við þá stefnu, enda var þessa gætt í frv. stj. Vildi ég færa þetta til hins fyrra horfs og leyfi mér því að bera fram skrifl. brtt., sem ég mun afhenda hæstv. forseta. Ég hefi þá gengið það á móti n., að í stað þess að í stj.frv. var ákveðið ½% þá hefi ég lagt til, að vextirnir séu allt að 1% hærri en venjulegir innlánsvextir í Landsbankanum.