11.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

24. mál, vega og brúargerð

Hannes Jónsson:

Hæstv. atvmrh. er víst gefinn fyrir hrossakaup, fyrst hann heldur, að allt sé hrossakaup hér í þessari d. Ég var ekki að bjóða upp á nein hrossakaup, heldur kom ég bara með sanngirniskröfu, og ég vil vita hvort hæstv. ráðh. vill taka þessar kröfur til greina, ef þær koma fram, eða hvort hann vill telja þær einhverja annarsflokksvöru.

Hæstv. ráðh. heldur, að ekki sé mikil atvinnuþörf í Húnavatnssýslu, en ég get sagt honum, að sú þörf er þar alveg eins mikil og í hverju öðru héraði á landinu. Fólk fer þaðan í atvinnuleit í ýmsar áttir, og það svo að tugum skiptir. Menn fara t. d. í vegavinnu og fleira bæði suður til Borgarfjarðar og Hvalfjarðar, og menn fara þaðan í atvinnuleit norður á Siglufjörð. Mér finnst því ekki nema sanngjarnt, að stj. líti á þarfir héraðsins, þegar svo stendur á, að þar bíða mörg aðkallandi óleyst verkefni og þörf er fyrir atvinnu og héraðsbúar bjóða fram slík lán, sem stj. vill með þessu frv. fá heimild til að taka. Eða heldur hæstv. ráðh. kannske, að í Húnavatnssýslu séu engir þjóðvegir, sem nauðsyn sé að byggja sem allra fyrst? Ég vil þá bara benda honum á, að árið 1907 taldi landsverkfræðingurinn, Jón Þorláksson, að nokkur hluti þjóðveganna í Vestur-Húnavatnssýslu ætti að koma til greina fyrst af öllum þjóðvegum. Og 1924, þegar Geir Zoëga vegamálastjóri skrifaði um það, hvaða vegi væri mest þörf á að leggja, þá var það þessi sami kafli, sem hann áleit, að fyrst ætti að koma til greina. Þessi kafli er ólagður enn, og enn er þar sama þörfin og var þar fyrir 20 árum. Aftur á móti hafa annarsstaðar verið byggðir vegir fyrir hundruð þúsunda, vegir, sem komu ekki til greina að áliti þessara manna, þegar þeir skrifuðu álit sitt.

Hvers vegna má þá ekki taka þetta fé til bráðnauðsynlegra framkvæmda og jafnframt til atvinnubóta, ef við getum lagt það fram sjálfir. Það verður ekki gert að gamni sínu og mun ekki reynast neinn hægðarleikur að útvega þetta fé. Við höfum ekki aðgang að bönkunum eins og bændurnir í sveitunum hér í kring. Við verðum að bjargast upp á eigin spýtur, ef á að lyfta þessu bjargi, og þá viljum við láta stj. líta með sanngirni á þarfir okkar.

Ég get ekki skilið þá undanfærslu, ef hæstv. ráðh. getur ekki sagt afdráttarlaust, að við eigum hér að njóta sama réttar og aðrir. Hvers vegna er þá ekki tekið fram, til hvers þessu fé verði varið og hverjir þeir séu, sem stj. ber helzt fyrir brjósti og eiga að fá einhverja séraðstöðu samkv. þessari sanngirnispostillu hæstv. ráðh.