08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

24. mál, vega og brúargerð

Hannes Jónsson:

Ég óska bara eftir svari við því, hvort búið er að ráðstafa þessu fé. (Atvmrh.: Það er búið að athuga sumar beiðnirnar). En er þá ekkert búið að ákveða? (Atvmrh.: Nei, ekki enn). En það er þó til sá möguleiki, að þær beiðnir, sem síðar koma fram, standi þar ekki vel að vígi. Annars væri fróðlegt að vita, hvað það er, sem alltaf er verið að rannsaka í þessu máli. Er verið að rannsaka þörfina, hvar hún er mest? Er verið að rannsaka, hvað þær fyrirhuguðu framkvæmdir á hverjum stað kosta, eða er verið að rannsaka, hverskonar lán það eru, sem um er að ræða í hverju tilfelli?

Það liggur í augum uppi, að þörfin getur verið alveg eins mikil hjá þeim sveitum, sem ekki hafa gefið sig fram enn, eins og þeim, sem nú þegar hafa borið fram óskir sínar, og ég óska eftir að fá að vita, hvort þeir, sem síðar koma, verði verr settir en þeir, sem fyrri urðu til, eða hvort eigi eins að taka tillit til þess, sem þeir beiðast, ef þeir sanna, að þeir hafi sömu þörf fyrir þessar framkvæmdir.