24.02.1933
Efri deild: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundason):

Það hefir komið í ljós hin síðari árin, að það var mikil þörf á að fé löggjöf um, hversu með skal fara, þegar bæjarfélag eða hreppsfélag lendir í fjárþröng. Það hefir sem sé komið fyrir hvað eftir annað, að hreppsfélög hafa gefizt upp og ekki getað innt af hendi skuldbindingar sínar.

Í löggjöf vorri eru engin ákvæði um þetta. Þeir hreppar, sem hefir rekið á sker, hafa annaðhvort látið reka á reiðanum eða snúið sér til þings eða stj. um hjálp, en með misjöfnum árangri. Ég hefi og fyrir satt, að það hafi komið fyrir, að sýslufélag hafi hjálpað hreppi, sem var kominn í þrot. Ég hefi og orðið þess var, að sumir líta svo á, að sýslufélögum beri skylda til að hjálpa hreppsfélögum, hverju á sínu svæði. Ekki þekki ég þó nein ákvæði í íslenzkri löggjöf, sem þetta geti stuðzt við, og frv. þetta byggir ekki, nema þá að mjög litlu leyti, á þessari skoðun.

Það er nú tilgangur þessa frv. að reyna að fylla í þá eyðu í löggjöfinni, sem ég gat um. Fjárvandræði hreppa eru kannske ein af fyrirbrigðum kreppunnar og nýundangenginnar heimsstyrjaldar, en þótt svo sé, þarf engu að síður löggjöf um þessi mál.

Þegar einstaklingur eða félag lendir í þrotum, þá eru í lögum vorum ýtarleg fyrirmæli um, hversu með skal fara. Þessar reglur mæla m. a. svo fyrir, að eignir hlutaðeigenda séu teknar og þeim skipt milli kröfueigenda eftir settum reglum. Það getur nú í fljótu bragði virzt, að ekki sé annar vandinn í þessu efni en að viðhafa þessar reglur um hrepps- eða bæjarfélag. En svo er ekki. Á sveitarfélögum og félögum einstakra manna er einn höfuðmunur, og hann er sá, að aðaltekju- eða eignarliður sveitarfélags er gjaldþol íbúanna. Þetta veldur því, að það er ekki auðskorið úr því, hve mikið má heimta af sveitarfélagi. Um einstaka menn og félög þeirra liggur þetta venjulega opið fyrir. Hér er því um höfuðmun að ræða, sem taka verður fullt tillit til, er löggjöf er sett um þessi efni.

Þegar einstakir menn eða félög þeirra verða gjaldþrota, er eignunum skipt milli skuldheimtumanna eftir settum reglum. Þeir, sem ekki fá greiðslu, tapa því, sem þeir áttu hjá hlutaðeiganda, sem reyndar ber ábyrgð enn á hinu ógreidda, en sú ábyrgð er venjulega einskis virði. Þessar reglur virðist vera hægt að yfirfæra að mestu á gjaldþrot sveitarfélaga, og það er gert í þessu frv. Sveitarfélögin verður að skoða eins og venjulega skuldunauta. Ef þau geta ekki staðið í skilum, verður sá að tapa, sem á hjá þeim.

Mér er ekki við þessa umr. leyfilegt að ræða einstök atriði frv., en ég get sagt það, að við samning þessa frv. var lögð hin mesta alúð við að tryggja það, að rétti skuldheimtumanna væri ekki misboðið með frv., og þó ekki gengið svo langt í að vernda rétt þeirra, að um of sé. Í frv. er gert ráð fyrir, að þegar skuldir sveitarfélags eru gefnar eftir, skuli ríkissjóður og eftir atvikum sýslusjóður leggja nokkuð af mörkum. Þetta á að vera nokkurskonar uppbót til skuldheimtumanna fyrir það, að þeir missa alveg rétt til hinna eftirgefnu krafna, eða hluta þeirra, og jafnframt er þetta hugsað sem hemill á eftirgjafir að nauðsynjalausu.

Ég tel, að nauðsyn sé á lögum um þetta efni og vona, að hv. d. athugi frv. með velvilja.

Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. allshn., þegar þessi umr. er á enda.