03.04.1933
Efri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Við samningu þessa frv. hefir hæstv. stj., sem eðlilegt er, haft ákveðið og einhliða fyrir augum ástand þeirra sveitarfélaga, sem í fjárþröng komast, svo sem 1. gr. tiltekur. Ákvæði frv. eru svo, sem ekki er heldur óeðlilegt, miðuð við það, sem þá eigi að gera. En ég vil leiða athygli að því, að ákvæði frv. geta, að mér virðist, haft allalvarlegar afleiðingar fyrir sveitarfélög yfir höfuð, sem sé í þá átt að rýra lánstraust þeirra og gera þeim því erfiðara fyrir með ýmsar framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru, en svo er háttað, að lánsfé þarf til. Áður var það álit ríkjandi í löggjöfinni á þessu sviði, að ábyrgð sveitarfélaga væri sú bezta trygging, sem hér væri hægt að fá. Sú trygging var einatt sett við hliðina á 1. veðrétti í fasteignum, og þá 3/5 af virðingarverði þeirra. Svo er það í löggjöfinni um flesta eða alla flokka veðdeildar Landsbankans, að ákveðið er, að lána megi gegn 1. veðrétti út á 3/5 virðingarverðs fasteigna og á ábyrgð sveitarfélaga.

Nú má með sanni segja, að eitt af þeim fyrirbrigðum, er nú blasa við, er það, að ábyrgð og borgunargeta sveitarfélaga er ekki eins trygg og 1. flokks fasteignatrygging. Þetta hefir líka verið tekið til greina í löggjöfinni á þann hátt, að í 1. um síðasta flokk veðdeildarinnar er ekki heimilað að lána út á ábyrgð sveitarfélaganna eingöngu. Þessu ákvæði er svo hagað að ósk stjórnar Landsbankans, sem áleit ekki ábyrgð sveitarfélaga eins góða og fasteignarveð.

Nú setur þetta frv. upp heilt kerfi af ákvæðum um, ég vil segja rétt sveitarfélaga til að koma sér hjá að greiða skuldir. Sá nýi réttur, sem sveitarfélögunum er hér gefinn, er réttur til að skjóta sér hjá greiðslu á skuldum. Í frv. stj. eins og það enn er, er töluvert hóf og gát haft á því, að ef of langt er farið á þessu sviði, gefið of laust taumhald á þessu, þá verður afleiðingin fyrir sveitarfélögin yfir höfuð lánstraustsspjöll. En till. n. ganga mjög í þá átt að rýra og fella í burt þau ákvæði stj.frv., sem forða mundu alvarlegum og almennum hnekki fyrir sveitarfélögin af slíkri löggjöf. Ég vil minna á það, að þótt ýms sveitarfélög hafi máske ekki aðrar framkvæmdir með höndum en þær, sem almenn löggjöf skyldar þau til, þá er þessu öðruvísi farið með kaupstaðina. Þar verður að leggja í ýmsar framkvæmdir, sem orðið geta til almennra hagsmuna fyrir almenning. Og slíkum framkvæmdum verður ekki komið fram öðruvísi en með lánsfé: Ég vil minna á Rvík. Þar hefir verið komið á fót stórfyrirtækjum, og sumum án allrar lagaskyldu, en sem orðið hafa bænum og öllum almenningi til stórra hagsbóta. Svo er t. d. með gasstöðina, höfnina, vatnsleiðsluna og rafmagnsstöðina. Allt eru þetta nytsöm fyrirtæki, en sem ekki varð komið á fót nema með lánsfé. Dæmi þessu ekki ólík má finna í hinum öðrum kaupstöðum landsins, og jafnvel ekki ólíklegt, að slíkt breiðist út til sumra sveitarfélaga, að þau komi á fót ólögboðnum fyrirtækjum til hagsbóta fyrir almenning.

Ég skal benda á brtt. n. 2. c. t. d. um það, hvað hér er í húfi fyrir þá, sem lána fé til slíkra fyrirtækja og taka sem tryggingu fyrir fé sínu 1. veðrétt í fyrirtækinu auk ábyrgðar hreppsfélagsins. Þeir geta vænzt þess, ef bæjar- eða sveitarfélagið kemst í svo mikil fjárþrot, að það hættir að geta staðið í skilum, að það láti þá fara fram virðingu á veðinu, og skal þá sveitarfélaginu afhent fasteignin fyrir það verð, sem metið er. Að vísu sker ráðh. úr, ef ágreiningur verður. En að þeim úrskurði loknum missir veðhafi allan rétt sinn til eignarinnar. Eins er það, ef uppboð er haldið, þá má leggja sveitarfélaginu út eignina fyrir hæsta boð. Það virðist því svo, og ég get ekki heldur annað skilið á orðum hæstv. ráðh. en að veðhafi tapi að öðru leyti öllum sínum rétti til greiðslu skuldarinnar. Ég get hugsað mér, að það verði nokkuð þungur gangur, eftir samþykkt slíkra l., fyrir kaupstaði að leita eftir nauðsynlegu lánsfé til nytsamra fyrirtækja. Það verður líka að hafa fyrir augum við samning slíkrar löggjafar, að til eru sveitarfélög, sem enn eru ekki í neinni þröng og þurfa að halda áfram að dafna. Hv. frsm. sagði, að ekki væri mikið misst, þó veðrétturinn væri skertur, því til væru lögfræðingar, sem álitu, að veðrétturinn ætti ekki að vera til. Já, það mun vera rétt, að til eru þeir lögfræðingar, eins og ýmsir aðrir menn með annari tegund menntunar. En ég vil segja hv. frsm. það, að þannig líta þeir menn einir á, sem ekki viðurkenna einstaklingsréttinn eða eignarréttinn. Það tvennt hlýtur að fylgjast að, eignarréttur og réttur til að veðsetja samkv. honum.

Ég horfi ekki á þetta mál eingöngu frá hagsmunasjónarmiði veðhafa, heldur og frá sjónarmiði þeirra sveitarfélaga, sem eigi eru í fjárþröng. Og er ég lít á þá hlið málsins, þá virðast mér stórir annmarkar vera á þessari lagasetningu. Ég veit nú að vísu, að til eru þau sveitarfélög, sem svo er ástatt um, að ekki mun verða komizt hjá því, að löggjöfin geri einhverjar ráðstafanir þeim til viðreisnar. En mér er ekki kunnugt um, að slík bágindi séu svo almenn, að þau geri það nauðsynlegt að setja almenn l. um þetta efni. Ég hafði haldið, að ástandið væri ekki bágara en svo, að unnt væri að láta sér nægja að gera sérstök l. um þau tilteknu sveitarfélög, er undir slík l. þurfa að komast. Þá væri heldur ekki lánstraust annara sveitarfélaga stórspjallað af slíkri löggjöf. Ég geri þó ráð fyrir, að fyrst bæði stj. og n. eru sammála um, að bágindin séu svo víðtæk, að setja þurfi almenn 1. þeirra vegna, þá verði það nú ofan á. En þá er það líka mikilsvert, að haft sé fyrir augum að spilla ekki lánstrausti þeirra, er eftir standa, eins og það er skynsamlegt að ákveða skuldaeftirgjöf þeim til handa, er ekki geta staðið í skilum.

Ég hefi bent á brtt. n. 2. c., sem hæstv. ráðh. hefir að vísu ekki getað fallizt á. Ég vil segja, að það er mjög athugavert hvað af samþykkt þeirrar brtt. getur leitt fyrir lánstraust sveitarfélaga. Að veðsett eign sé seld hæstbjóðanda er ekkert nýmæli. En að sveitarfélag geti fengið sér eignina útlagða eftir mati og afgangur veðskuldarinnar falli niður, öðlist engan rétt sem almenn krafa í búi skuldunauts, það er algert nýmæli. Af ákvæðum frv. sakna ég þess sérstaklega, að í 16. gr. er ekki, að minni hyggju, tekinn nema annar hlutinn af því, sem þar þyrfti að kveða á um. Greinin segir: „Meðan stendur á ákvörðunum þeim, sem lög þessi ráðgera“ — en slíkt tekur vitanlega oft langan tíma, jafnvel fleiri ár — „ber aðstoðarmanni og sveitarstjórn, að viðlagðri ábyrgð að lögum, að sjá um, að í fjármálefnum sveitarfélags sé ekkert aðhafzt, sem rýri möguleika skuldheimtumanna til að fá greiðslu. Fyrir því má ekki inna af hendi önnur gjöld en þau, sem þarf til að halda uppi lögboðinni starfsemi, svo að sæmilegt sé, eða samningsbundnar greiðslur af fasteignaveðslánum“. — Í þessari gr. er önnur hliðin tekin fyrir, sem er sú, að inna ekki önnur gjöld af hendi en þau, sem nauðsynleg eru vegna lögboðinnar starfrækslu sveitarfélagsins, eða samningsbundnar greiðslur af fasteignaveðslánum. En um hitt eru engin fyrirmæli, sem þó er meiri hætta á, að verði afrækt, en það er að afla sveitarfélaginu þeirra tekna, sem unnt er. Það er ekki mikil hætta á, að sveitarsjóðir, sem komnir eru í þröng, séu látnir inna af hendi gjöld, sem ekki eru óumflýjanleg. En hin hættan blasir við, að vanrækt verði að afla tekna eftir því, sem frekast má. Ég álít það vöntun, að ekki er að þessu vikið í frvgr.

Ég ætla ekki að segja mikið meira um þetta að svo stöddu. En ég er ákaflega hræddur um, að afleiðing slíkrar löggjafar sem þessarar verði nokkuð tilfinnanleg fyrir sum bæjarfélögin, svo sem Rvík, sem er þó komin það langt áleiðis með sín málefni, að hún hefir unnið sér nokkurt sjálfstætt lánstraust, sem enn hefir eigi verið misnotað, þótt öruggara þyki að vísu, þegar lengra í burtu er leitað um lán, að ábyrgð ríkissjóðs sé til staðar. Ég álít verr farið, ef þessi l., sem gerð eru vegna þeirra sveitarfélaga, sem í vandræði hafa komizt, verða til þess að skerða lánstraust annara sveitarfélaga fram úr hófi, þannig að kaupstaðir og kauptún, sem enn eiga þó nokkurt ónotað lánstraust, fengju hér eftir ekki lán nema gegn ábyrgð ríkisins. En ég er hræddur um, að svona löggjöf mundi verka í þá átt.

Ég vil enn víkja að einni brtt. n., þeirri 3., sem gengur út á það, að breyta upphafi 11. gr. frv. Ég tel þá breyt. alveg óhæfa. Í þeirri gr. hefir stj. stungið upp á því, að ákvæði þau, er gilda um nauðasamninga, fyrir því að niður falli ákveðinn hluti allrar skuldarinnar, og sem eru þau, að 2/3 hlutar skuldheimtumanna samþ. tillögurnar, skuli gilda um þessi tilfelli. Í þessu ákvæði er sæmileg trygging fyrir því, að nauðasamningarnir verði ekki misnotaðir hvað þetta snertir. En nú stingur hv. allshn. upp á því að fella niður ákvæðið um tölu skuldheimtumannanna, og leggur til, að ekki þurfi annað en samþykki skuldheimtumanna, sem ráða yfir meiri hluta skuldanna. Getur því svo borið til, að aðeins einn maður ráði þessu; þarf ekki annað en hann kaupi skuldirnar eða fái umboð fyrir þær. Ég álít því, að þessi ákvæði komi að litlu gagni fyrir þau sveitarfélög, sem komin eru í þröng, þar sem svo auðvelt er að misnota þetta, að ekki þarf nema einn mann, sem kannske sér leik á borði að gera slíka ákvörðun.