03.04.1933
Efri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

0955Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni, því umr. eru þegar orðnar nokkuð langar um þetta mál. Ég ætla þó aðeins að svara þeim hv. frsm. og hv. 1. landsk. nokkrum orðum. Viðvíkjandi því, að ríkið skerði gjaldþol sveitarfélaga, þá er það rétt að því leyti, að eftir því sem ríkið heimtar meir og meir aukin framlög frá borgurunum, þá verkar það þannig á sveitarfélögin, en ástæðan til þess er fyrst og fremst auknar kvaðir, sem þingið leggur á ríkissjóð. Hér er því að ræða um sök þingsins og að nokkru leyti stj. Ég lít svo á, að ef einstök sveitarfélög geta ekki klárað sínar skuldir, þá eigi þau að snúa sér til stj. og óska eftir að fá nýja tekjustofna. Þetta hefir áður verið gert, og stj. hefir látið bera fram frv. um aukinn skatt handa þessum sveitarfélögum, og hefir slíkum málum verið yfirleitt tekið vel á þingi. Ég get tekið það fram, að ég hefi ekki skipt um skoðun af því að hlusta á ræðu hv. frsm. Þó vil ég taka undir það með honum út af c-liðnum í brtt. n. við 10. gr., að ég tel hana réttmæta, það sem hún nær, en það vantar að taka það fram, að það, sem veðsett eign kann að verða metin hærra en það veðlán, sem á henni hvílir, á að koma til greina sem greiðsla á almennum skuldum. Að því leyti er ég ósamþykkur hv. 1. landsk., en sammála hv. frsm., en það, sem ég sagði, var, að ég álíti ekki heimilt að fella niður veðrétt, sem skráður er í veðmálabókum, þó að skuld sú, er á veðinu hvílir, sé strikuð út.

Viðvíkjandi 4. brtt. n., um það, að setja sýslumann viðkomandi sveitarfélags í stað lögmannsins í Rvík til þess að dæma um það, hvort sveitarfélagið getur greitt sínar skuldir eða ekki, þá vil ég taka fram, að ég álít þá brtt. ekki miða í rétta átt. Tilgangurinn með þessari þriggja manna nefnd, sbr. 13. gr., er einmitt sá, að fá þarna hlutlausan dómstól í málinu. Það er talsvert alvarlegur hlutur, að ákveða það, að skuldir skuli falla og verða aldrei afturkræfar. Ég get verið hræddur um, að hlutaðeigandi sýslunefndaroddviti kunni að hafa óafvitandi tilhneigingu til þess að leggja til, að sveitarfélagið fái meira eftir gefið en góðu hófi gegni. Ég er ekki hér að saka sýslunefndaroddvitana um hlutdrægni, en ég held, að það gæti hent sig, að þeir óafvitandi yrðu hlutdrægir, og ég held það sé tæplega rétt að leiða þá í slíka freistni, heldur beri hér að taka þann mann inn í dómstólinn, sem öll skilyrði hefir til þess að vera hlutlaus, lögmanninn í Rvík. Það held ég, að sé viturlegri ráðstöfun. Þessari n. þarf að gefa sem mest vald. Ráðh. má ekki fara lengra en n. verður sammála um að leggja til, enda getur það hent, að pólitískur ráðh. líti ekki heldur óhlutdrægt á það mál, hvort fella skuli niður skuldir á einu sveitarfélagi eða ekki. Hér er því spurningin aðeins um það, hvort tveir menn í dómnefndinni, sem hafa skilyrði til þess að vera hlutlausir, skuli ráða till. n., eða hvort sá vandi á aðeins að hvíla á einum manni.

Viðvíkjandi þeim dæmum, sem hv. frsm. kom með um forgangsskuldir í búum hreppsfélaga, þá vil ég taka fram, að það er hvergi ákveðið, að slíkt séu forgangsskuldir í þessu tilfelli. Í skiptalögunum eiga ákvæði um þær skuldir, sem hv. frsm. nefndi, aðeins við um einstaka menn. Ég hefi nú fengið skýringu á því, hvað hann átti við með forgangsskuldum sveitarfélaga, og ég álít, að þær séu ekkert hættulegar, en ég álít réttara að tiltaka í lögunum, hvaða skuldir átt er við. Ef ég væri skiptaráðandi, mundi ég verða í vandræðum með það, hvort mætti nota þetta ákvæði „analogiskt“ eins og það er.

Þá áttu sum þeirra dæma um forgangsskuldir sveitarfélaga, sem hv. frsm. nefndi, alls ekki við. Ef þarf að vitja yfirsetukonu eða læknis og þurfalingur getur ekki borgað, þá er hér vafalaust ekki um neina forgangskröfu að ræða.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. 1. landsk. sé farinn af fundi, en þó verð ég að svara honum nokkrum orðum.

Hann hélt því fram, að frv. rýrði lánstraust sveitarfélaga, en ég er á öðru máli. Það er rétt, að áður fyrr voru sveitarfélögin álitin einmitt beztu lántakendurnir, en nú er þetta gerbreytt; nú mætti frekar segja, að þau væru einhverjir verstu lántakendurnir. Það er því ekki svo hætt við, að lánstrausti þeirra verði spillt. Það er þegar búið að spilla lánstrausti sveitarfélaga með óvarkárni í lántökum, og ég sé raunar ekkert eftir því, þó að sveitarfélögum verði eftirleiðis erfiðara að taka lán heldur en verið hefir. Það er auðséð, að lánsstofnanir hafa oft sýnt sveitarfélögum of mikið traust í þessum efnum. Aftur á móti er ég ekkert hræddur við það, þó að vel stæð sveitarfélög fái lán, enda er engin hætta, að á því standi. Hin hafa ekkert með það að gera að fá lán, og það er ekki nema rétt að vara lánstofnanir við slíkum sveitarfélögum, sem þær kannske halda, að sé ágætur lánþegi. Hluturinn er sá, að mörg sveitarfélög eru nú í svo miklum vandræðum, að þau sjá engin ráð til þess að bjargast hjálparlaust frá þeim skuldum, sem þau hafa verið að safna um mörg ár, og það eru til sveitarfélög, sem eru alveg hætt að borga, eins og hv. frsm. sagði, og hafa alveg lagt árar í bát. Ég veit, að slík sveitarfélög eru mörg á landinu. Þau skipta tugum. Seinast í morgun var staddur hjá mér einn oddviti sveitarfélags á Vesturlandi, sem taldi, að hag þess sveitarfélags væri þannig komið, að engin leið væri til þess, að það gæti staðið í skilum. Þetta frv. er mjög varlega orðað. Það er gengið ákaflega ríkt eftir því, að þeir, sem eiga hjá sveitarfélögum, fái allt það, sem þeir geta fengið. Það er ekki tilgangur frv. að stofna nokkurn nýjan rétt fyrir þá, sem eigi hjá sveitarfélögum. Frv. er byggt á þeim grundvelli, að skuld, sem er töpuð, verði strikuð út, en heldur ekki meira.

Þá var hv. 1. landsk. að tala um það, að í 16. gr. vantaði ákvæði, er tryggði það, að sveitarfélagi verði séð fyrir nægilegum tekjum til þess að standast óhjákvæmileg gjöld sveitarfélagsins meðan stendur á ákvörðunum eftir þessum lögum, en það liggur víða í frv., að út frá því er gengið, að umsjónarmaðurinn sjái um, að lagt sé á gjaldendurna eins og hægt er án þess að íþyngja þeim um of.