03.04.1933
Efri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég þarf aðeins litlu að svara hæstv. ráðh. Að því er snertir það, að strika skuldir út úr veðmálabókum, þá er það alveg rétt, að n. hefir ekki sérstaklega tekið það atriði til athugunar, og gleymdi ég áðan að minnast á það. Að því er snertir þessar skuldir, þá er það hvorttveggja, að viðkomandi fær bætta tryggingu í ábyrgð sýslufélagsins, og í öðru lagi fær hann ekki aðeins aukinn rétt hjá sveitarfélögunum, heldur miklu meira. — Þess vegna hélt ég, að þetta væri ekki praktiskt, en n. mun athuga þetta atriði fyrir 3. umr., og þá er hægurinn hjá að bæta úr því, er þurfa þykir.

En hvað skiptal. snertir, þá segir hér í 9. gr. þessa frv. svo: „Í tillögunum skal farið eftir 82.—89. gr. skiptalaga 12. apríl 1878 að því leyti, sem þær eiga við“. Nú skal ég ekki bera brigður á það, að skiptal. eigi fyrst og fremst við viðskipti einstaklinga, en með þessu frv. er farið fram á, að reglur þeirra um skuldir gildi einnig um sveitarfélög. Ég veit ekki, hvernig þessum l. hefir verið beitt í einstökum tilfellum í Danmörku, en yfirleitt munu skiptal. hafa verið látin gilda víðar en um einstaklinga.

En hvað snertir gjald til yfirsetukvenna, þá er tekið fram í c-lið 83. gr. skiptal., að skuldir til lækna og yfirsetukvenna skuli vera forgangsskuldir.

Það er skoðun mín, að þetta frv. komi þá fyrst að notum, ef brtt. n. verða samþ. Og ég vil minna á það, að ekki er hlaupið að því að nota þessi l. Það er ekki hægt nema að ráði hinna þriggja aðstoðarmanna sveitarfélaganna, sem eiga að hafa kynnt sér allt, sem að þessu lýtur, og með samþykki ráðh. Þetta álít ég fulla tryggingu fyrir því, að l. verði ekki misbeitt.

Að því er sýslumanninn snertir, þá hefir mér þótt réttara, að einhver maður kæmi þarna að fyrir hönd sveitarfélaganna, og m. a. af því að víða er svo, að sveitarfélögin eiga ekki kost á miklu úrvali manna til stjórnar, og getur hagur sveitarfélaganna oft oltið á því, hver stjórnina hefir.