07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Viðvíkjandi 13. gr. er ekki annað en það að segja, að þau ákvæði, sem hv. 1. landsk. vitnaði í, verða vitanlega þýðingarlaus þegar um kaupstað er að ræða, en ekki hrepp, sem er partur úr sýslufélagi, sem hefir sameiginlegan sýslusjóð.

Það er algerð vangá, að hreppur er nefndur í 5. gr. í stað sveitarfélags, og viðurkenni ég, að þörf er á að leiðrétta það.

En það, sem deilan stendur um, er það, hvort ákvæði þessa frv. rýri lánsmöguleika kaupstaðanna. Ég get ekki séð, að svo verði. Það er rás viðburðanna, sem rýrt hefir gjaldþol sveitarfélaganna yfirleitt. Og þeir, sem veita lán, verða að athuga, hvort sveitarfélagið er góður lánþegi eða ekki. Áður var litið svo á, að sveitarfélögin væru góðir lánþegar. En nú mun vera litið svo á af lánsstofnunum, að sveitarfélögin séu ekki 1. flokks skuldunautar. Þetta á alveg eins við um kaupstaðina eins og hreppsfélögin, enda mun ekki ofmælt, að sumir kaupstaðirnir séu í kröggum nú. Ég á vitanlega erfitt um að svara hv. l. landsk. til varnar atriði, sem inn kom í frv. við 2. umr., þar sem ég var því mótfallinn. En þótt svo væri, tel ég þau atriði ekki svo stór, að ég vilji þess vegna fella frv. Mér þykir t. d. verra, að það var sett inn í frv., að einfaldur meiri hl. skuli duga til samþykkis till. aðstoðarmanns. En ég vil þó ekki fórna frv. þess vegna.

Hv. 1. landsk. sagði, að skuldheimtumenn væru verr settir í viðskiptum sínum við sveitarfélög eftir þeim reglum, sem settar eru í frv. þessu, en þeir væru gagnvart einstökum mönnum eftir þeim reglum, er þar um giltu. Það má vera, að svo sé að sumu leyti, en að sumu leyti er það áreiðanlega ekki. Þegar frv. þetta var búið til, var það haft fyrir augum að vernda rétt skuldheimtumannsins svo sem fært þótti. Og því var það ákvæði m. a. sett, að ríkissjóði var gert að skyldu að bæta honum upp, sem ekki er þó vani þegar um einstaks menn er að ræða. Og svo ströng eru skilyrðin um eftirgjafir til sveitarfélaganna, að ég get ekki hugsað mér, að þetta verði misnotað. Þau eru miklu strangari en þau, sem gilda um nauðasamninga til einstakra manna. Þar er ekki nærri því eins vel um þetta búið.