07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Pétur Magnússon:

Hv. 1. landsk. hefir haldið því fram við 2. umr. og nú aftur við þessa umr., að frv. gæti spillt lánstrausti sveitar- og bæjarfélaga. En þó að sett séu ákvæði um það, hvernig skipta skuli eignum á milli skuldheimtumanna, ef um gjaldþrot er að ræða, þá getur það ekki orðið til þess að spilla lánstrausti. Það gerir vitanlega enginn ráð fyrir því, að öll bæjar- og sveitarfélög komist í fjárþröng. Ef það væri rétt, sem hv. 1. landsk. heldur fram, þá ætti hið sama að gilda um einstaklinga og prívatfélög: ákvæðin um gjaldþrot einstakra manna og félaga ættu að rýra lánstraust þeirra. En slíkt nær engri átt. Ég held, að hv. 1. landsk. hafi ekki bent á nema tvö atriði í frv., sem gætu orðið skuldheimtumönnum óhagstæð, það eru ákvæðin í 10. og 11. gr.

Hvað það atriði snertir, að einfaldur meiri hluti skuldheimtumanna ráði úrslitum, þá sé ég ekki, að þetta verði til spillis fyrir skuldheimtumenn. Ráðh. hefir úrskurðarvald og auk þess fer eftirgjöf því aðeins fram, að 3 aðrir traustverðir menn leggja það til. Ég sé því ekki, að í þessu ákvæði sé nein hætta falin. Um hitt atriðið, matið á fasteignum, gildir öðru máli. Og ég játa fúslega, að ég álít, að löggjöfin megi ekki fara inn á þá braut að rýra veðgildi fasteignanna. Ég gekk inn á matsákvæði í n., af því að ég leit svo á, að hér væri um algert undantekningarákvæði að ræða. Verð ég að játa, að eftir þær bendingar, sem hv. 1. landsk. hefir gefið í málinu, þá lít ég nú öðruvísi á þetta heldur en ég gerði eftir lauslega yfirvegun í n. Það hefir stórvægilega þýðingu, að ekki sé rýrt það traust, sem skuldheimtumenn geta borið til trygginga í fasteignum.

Fyrir mér vakti, þegar ég gekk inn á þessa brtt., eins og hv. 2. þm. Árn. tók fram, að skuldheimtumenn gætu sprengt upp verð á skólahúsum og öðrum þeim húsum, sem sveitarfélögin eru neydd til að halda i. Þó að húsið sé gamalt og í sjálfu sér mjög lítils virði, þá getur það verið alveg ómissandi fyrir sveitarfélagið. Svo gætu skuldheimtumenn notað sér neyð sveitarfélaganna til þess að sprengja verðið upp úr sannvirði. Mér hefir dottið í hug að bæta úr þessu með brtt., sem ég legg hér fram, með leyfi hæstv. forseta, með tilmælum um, að hann leita afbrigða um hana, svo hún megi koma til atkvæða.