12.04.1933
Neðri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Jóhann Jósefsson:

Þetta frv. hefir orðið fyrir þeirri breyt. í Ed., að samkv. ákvæðum þess eiga kaupstaðir ekki að geta notið þess, eins og til var ætlazt í upphafi. Ég tók eftir, að hæstv. ráðh. sagði, að ef til vill yrði ekki langt þangað til setja yrði l. lík þessum til viðreisnar kaupstöðum. Út af þessu vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort taka eigi orð hans þannig, að stj. ætli að fara að undirbúa, eða hafi undirbúið fyrir næsta þing eða þetta, eitthvert skipulag til hjálpar kaupstöðum. Það er hverjum manni vitanlegt, að ýmsir kaupstaðir berjast nú mjög í bökkum, og fjárhagsvandræði sveitarfélaga lenda oft að talsverðu leyti á kaupstöðunum, m. a. þannig, að ekki fæst greiddur sveitarstyrkur þurfamanna, sem eiga heima í kaupstöðum, en framfærslusveit í einhverjum hreppi úti á landi. Þetta ástand er orðið óþolandi, og er eðlilegt meðan svo gengur, að þeim röddum fjölgi, sem vilja gera allt landið að einu framfærsluhéraði. Ég er ekki þar með að segja, að það sé gallalaust fyrirkomulag, en það er þó a. m. k. skárra en það, sem nú viðgengst, því að nú er svo komið, að það er ekki einu sinni svo, að ýmis sveitarfélög geti ekki borgað þessa framfærslustyrki, heldur eru þau líka hætt að svara bréfum og fyrirspurnum

En það er ekki aðeins að þessu leyti, sem bæjarfélögin eiga erfitt nú á þessum krepputímum. Eins og kunnugt er, hefir atvinnuleysi stóraukizt, og nú er heimtað, sérstaklega af jafnaðarmönnum, að bæjarfélögin haldi uppi atvinnubótum, hvort sem nokkrir möguleikar eru til þess eða ekki. Þetta allt hefir orðið þess valdandi, að fjárhagsörðugleikar bæjarfélaga hafa aukizt ískyggilega mikið, svo að nú eru þeir meiri en nokkru sinni áður.

Ég þykist vita, að það sé hvorki einum né öðrum kappsmál að hafa afskipti af þessum málum fyrr en í fulla hnefana. Það kostar sennilega ríkissjóðinn fjárútlát og yfirvöldin erfiði og umhugsun að finna þau úrræði, sem helzt megi duga. Ég vil þó benda á, að í flestum tilfellum mun verða hægara fyrir ríkið að hjálpa bæjarfélögunum áður en þau eru alveg komin í kútinn heldur en að koma þá fyrst þeim til hjálpar, þegar allt er komið í kalda kol. Ég tel því nauðsynlegt, að þing og stjórn geri nú þegar ráðstafanir til að hjálpa þeim bæjarfélögum, sem allra erfiðast eiga.

Ég hefi heyrt, að í Noregi, þar sem staðhættir eru einna líkastir því, sem er hér á landi, hafi ríkið gert mikilvægar ráðstafanir til að hjálpa bæjarfélögum. Ef til vill gætu Íslendingar lært eitthvað af Norðmönnum í þessu efni.

Þar sem ekki á að hjálpa bæjarfélögum með þessari löggjöf, sem hér á að setja, þá vil ég leggja áherzlu á það, hver nauðsyn er að hjálpa þeim nú á þessum vandræðatímum. Og ég þykist vita, að þegar hæstv. dómsmrh. sagðist telja líklegt, að bráðlega yrði að gera slíkar ráðstafanir, þá hafi hann þar haft eitthvað vist í huga. Þætti mér vænt um að fá nánari upplýsingar um það nú við þessa umræðu.