19.04.1933
Neðri deild: 53. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Halldór Stefánsson:

Ég kvaddi mér hljóðs, þegar þetta mál var tekið af dagskrá við fyrri hl. þessarar umr. Það, sem sérstaklega kom mér til að kveðja mér hljóðs, voru ummæli frá hv. 4. þm. Reykv., sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo, að hann áliti framtal til tekju- og eignarskatts óábyggilegra í sveitum en í kaupstöðum. Slíkt álit kemur oft fram í kaupstaðablöðunum og víðar, og vil ég ekki láta því ómótmælt. Ég er þessu talsvert kunnugur, og er það sannfæring mín, að þessi skoðun sé með öllu ástæðulaus og ómakleg. Má benda á það, sem fram kom hérna í Rvík þegar skattstjóraskiptin urðu og sýndi, að skattaframtöl eru sízt áreiðanlegri hér í höfuðstaðnum en annarsstaðar. Í sveitum er það svo, að þar þekkir hver annars hag, svo að því nær ómögulegt væri að draga þar undan, þótt menn vildu. Ástæðan fyrir því, að ég stóð upp, var eingöngu sú, að ég vildi ekki láta þessari nokkuð almennu skoðun hér í Rvík ómótmælt.