19.04.1933
Neðri deild: 53. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Str. tók fram, að það þyrfti að athuga ábyrgðir þær, er sveitarfélögin stæðu í, þegar tekin væri ákvörðun um þetta mál. Það er alveg rétt, og fyrir þessu er líka séð í frv., sbr. 2. og 4. gr. Er gert ráð fyrir því, að hafður sé trúnaðarmaður til þess að rannsaka hag hvers sveitarfélags og gera sínar tillögur. Hv. þm. sagði líka, að það myndi fara fækkandi þeim tilfellum, að hreppsfélög gengju í ábyrgð, og má það vel vera rétt, því að lánsstofnanir hafa þegar rekið sig mjög á það, að sveitarfélög eru enganveginn tryggir aðilar í því efni. Verða þær nú að fara að athuga betur fjárhag þeirra sveitarfélaga, er þær ætla að veita lán.

Út af orðum hv. 4. þm. Reykv. vil ég benda á það, sem ég áður tók fram, að það verða að gilda aðrar reglur um sveitarfélög en einstaklinga, enda hyggist frv. á því. Reglur um nauðasamninga einstaklinga voru reyndar hafðar talsvert til hliðsjónar, en þó var þeim ekki fylgt út í æsar. Á auðvitað ekki að fara lengra í eftirgjöfunum en nauðsynlegt er. Ég vil ekki neita því, að það kunni að vera rétt hjá hv. þm., að misjafnlega hart sé gengið að ýmsum meðlimum sveitarfélaganna. En þau sveitarfélög, sem komast í vandræði og standa í miklum skuldum, sljóvgast og verða skeytingarlaus, þegar skuldirnar vaxa þeim yfir höfuð. Er þá bezta leiðin að gera þeim á einhvern hátt mögulegt að borga. Sá, sem á skuld hjá öðrum, sem ekki getur borgað, verður venjulega að tapa henni. Er ekkert við því að segja, þótt því sé slegið föstu, að féð sé þá tapað. Það, sem hv. 4. þm. Reykv. virðist halda fram, er það, að þótt aðili geti ekki borgað að svo stöddu, þá gæti vel verið, að hann verði fær um það síðar. En frv. tekur einmitt tillit til þessa. Ríkissjóði er gert að leggja fram allt að 10% af þeim skuldum, er afskrifaðar eru, og hlutaðeigandi sýslusjóður greiði helming á móts við ríkissjóð, ef fjárhagur hans leyfir. Þetta fá eigendur sem uppbót á þeirri von, að þeir kunni að fá eitthvað síðar meir. Er hér gengið eins langt og hægt er í því að tryggja rétt skuldheimtumanna. Þegar nauðasamningar eru gerðir, strikar það opinbera alveg yfir þennan möguleika, en hér er það ekki gert.

Um framtöl í sveitum og kaupstöðum er ég sammála hv. 1. þm. N.-M. Er það gömul trú, að verr sé fram talið í sveitum en hér, en ég held, að þetta sé ekki rétt. En þótt svo væri, þá kæmi það ekki þinginu við að öðru leyti en því, að það gæti þá skorað á stj. að kippa því í lag. En lagabreyt. þyrfti ekki til í því efni, því að 1. gera öllum jafnt undir höfði um þetta. Fyrstu árin, sem 1. um þetta voru í gildi, eftir 1921, gat þetta ekki verið í góðu horfi, en það kemst nú í betra horf um allt land frá ári til árs.