19.04.1933
Neðri deild: 53. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Halldór Stefánsson:

Mér skildist á hv. 4. þm. Reykv., að hann vildi vefengja það, að framtöl til tekju- og eignarskatts væri nothæfur grundvöllur til samanburðar á getu hinna ýmsu sveitarfélaga um fátækraframfæri. Hann tilnefndi dæmi um það, að jafnvel einn skattborgari í Rvík hefði greitt eins mikinn skatt og heilt hreppsfélag, en væri þó vitanlega ekki fær um að bera fátækrabyrðar heils sveitarfélags. Getur þetta vel verið rétt, það sem það nær, en það sýnir bara allt annað en hv. þm. vildi vera láta. Það sýnir það, að ef einn — aðeins einn — skattborgari í Rvík hefir jafnmiklar skattskyldar tekjur og heilt sveitarfélag, sem út af fyrir sig getur verið álitamál, hvað mundi þá, ef lagðar eru saman tekjur allra reykvískra skattborgara. Því aðeins væri réttur samanburður um þetta efni, að borin væri saman heild við heild. Það hefir lengi verið talið, að tekjur og eignir væru „breiðasta bakið“ til að bera opinber gjöld, og sýnir þetta þá ekkert annað en það, sem alkunnugt er, að bæjarbúar eru tekjumeiri heldur en sveitamenn og færari um að bera hærri útgjöld.